Ný samþykkt velferðarráðs borgarinnar um nýja aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir verður tekin fyrir á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag.
Áætlunin var kynnt fyrir borgarfulltrúum 15. janúar sl. „Þetta er annað stig í aðgerðaáætlun fyrir heimilislausa, en fyrsta samþykktin var gerð árið 2019 og núna erum við að fara að halda áfram að byggja upp þjónustu fyrir þennan hóp,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi Samfylkingar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún býst við því að aðgerðaáætlunin verði samþykkt.
„Við erum búin með aðgerðaáætlunina sem var samþykkt árið 2019 og erum t.a.m. búin að fjölga varanlegum búsetuformum um 86 frá þeim tíma, en hugmyndin hefur alltaf verið að minnka þörfina á gistiskýlum sem eru í reynd neyðaraðstoð.“
„Stóra breytingin er að við erum að fara frá því að vísa fólki á gistiskýli og reyna frekar að finna fólki fasta búsetu, hvort sem það er sjálfstæð búseta eða húsnæði með stuðningi, og erum núna að halda áfram á þeirri vegferð sem hófst 2019.“
Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.