Óvenjukalt var í veðri á liðnu ári

mbl.is/Eyþór

Liðið ár var óvenjukalt ef tekið er mið af hitafari aldarinnar.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands var hiti á landsvísu 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og sá lægsti síðan 1998.

Kaldast var að jafnaði á Norðurlandi en hlýrra við suðurströndina.

Hitavik sjálfvirkra stöðva árið 2024 miðað við síðustu tíu ár …
Hitavik sjálfvirkra stöðva árið 2024 miðað við síðustu tíu ár (2014-2023). Mynd/Veðurstofa Íslands

Á heildina litið var árið þurrara en í meðallagi á austan-, sunnan-, og suðvestanverðu landinu en blautara en í meðallagi á Norður- og Vesturlandi, þar sem vætutíð sumarsins var mest.

Þá einkenndist sumarið af lægðagangi og óhagstæðri tíð en loftþrýstingur var óvenju lágur frá júnímánuði og út ágúst.

Nokkuð hægviðrasamt var á öðrum árstímum og loftþrýstingur og vindhraði í kringum meðallag.

Sumarið óvenjukalt

Yfir vorið var meðalhiti nærri meðallagi. Apríl var sérstaklega kaldur á Norðausturlandi þar sem úrkomusamt og snjóþungt var fram eftir mánuðinum. Þurrt var annars staðar á landinu yfir mánuðinn. Maí var hlýr í heildina, blautt var suðvestanlands en þurrt og sólríkt á Norðausturlandi.

Eins og landsmönnum er kunnugt var lítið um hlýja daga yfir sumarið sem var óvenjukalt miðað við sumur þessarar aldar. Hiti á landsvísu var undir meðallagi yfir allt sumarið að júlí fráskildum, þegar ágætis hlýindi voru á Norðaustur- og Austurlandi.

Eins og fram kom var lofþrýstingur óvenjulega lágur, á það sérstaklega við um ágúst. Í Reykjavík var meðalloftþrýstingur sá lægsti sem mælst hefur í ágúst frá upphafi mælinga árið 1820. Lægðagangur og óhagstæð tíð einkenndu því sumarið en nokkuð langvinnt norðanhret gekk yfir landið í byrjun sumars og óvenjumikið snjóaði á norðanverðu landinu miðað við árstíma.

Hitavik hvers mánaðar 2024 í Reykjavík og Akureyri miðað við …
Hitavik hvers mánaðar 2024 í Reykjavík og Akureyri miðað við meðalhita áranna 1991 til 2020. Tafla/Veðurstofa Íslands

Þá tók við mikil vætutíð og var sumarið óvenjulega blautt, sérstaklega á Vestur- og Norðurlandi. Júlí var sérlega blautur á vestanverðu landinu og ágúst á norðanverðu landinu. Mesta sólarhringsúrkoma ársins yfir allt landið mældist 235,2 mm í Grundarfirði þann 13. júlí. Er það mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur í júlímánuði á landsvísu.

Mikil vatnsveður gengu yfir landið yfir sumarið. Því fylgdu miklir vatnavextir í ám og lækjum og aurskriður féllu víða á þeim stöðum sem mest rigndi.

Hitamet slegið í nóvember

September og október voru tiltöluleg þurrir. Sólríkt var í september þrátt fyrir kulda og tíð mun hagstæðari en um sumarið. Þá var október kaldur og hægviðrasamur.

Nóvember var tvískiptur. Fyrri hlutinn var óvenjuhlýr og hafa fyrstu fjórtán dagarnir í nóvember aldrei mælst eins hlýir og þeir gerðu á mörgum veðurstöðvum landsins. Þessa daga voru hlýjar og heldur hvassar sunnanáttir með vætutíð sunnan- og vestanlands, en þurru og hlýju veðri á Norður- og Austurlandi.

Mikil úrkoma og leysingar voru á Vestfjörðum dagana 11.-13. nóvember. Olli það töluverðum vatnavöxtum og óvenju mikið var um grjóthrun og skriður á þeim landshluta.

Sumarúrkoma ársins 2024 (júní, júlí, ágúst) sem hlutfall af meðalsumarúrkomu …
Sumarúrkoma ársins 2024 (júní, júlí, ágúst) sem hlutfall af meðalsumarúrkomu síðustu tíu ára (2014 til 2023). Mynd/Veðurstofa Íslands

Hitamet í nóvember voru slegin á fjölda veðurstöðva um land allt. Hitinn mældist hæstur í 23,8 stigum á Kvískerjum í Öræfum, er það hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í nóvembermánuði. Hratt tók þó að kólna á landinu um miðjan nóvember og var hiti vel undir meðallagi út mánuðinn.

Frost -28,6 stig

Meðalhiti yfir haustið var undir meðallagi þrátt fyrir þennan hlýindakafla í byrjun nóvember.

Tíðin var þá nokkuð góð um veturinn 2023 til 2024 (desember 2023 til mars 2024), hægviðrasamt og þurrt var í veðri. Lítið var um illviðri en það var kalt og var hiti vel undir meðallagi um land allt.

Desembermánuður 2024 var einnig kaldur. Þurrt var á Norðaustur- og Austurlandi en blautara vestanlands. Vindhraði var rétt undir meðallagi en hvasst og umhleypingasamt var yfir jólahátíðina. Mesta frost ársins á landinu mældist -28,6 stig í Svartárkoti þann 31. desember.

Landsmeðalhiti hvers sólarhrings á árinu 2024 sýndur sem vik frá …
Landsmeðalhiti hvers sólarhrings á árinu 2024 sýndur sem vik frá landsmeðalhita síðustu tíu ára (2014-2023). Tafla/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert