Staðan endurmetin í dag

Mikið hefur snjóað á Norðaustur- og Austurlandi á síðustu dögum.
Mikið hefur snjóað á Norðaustur- og Austurlandi á síðustu dögum. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Appelsínugular veðurviðvaranir á Austfjörðum féllu úr gildi á miðnætti. Hæglætisveðri er spáð í kvöld.

Óvissustig á Austfjörðum og hættustig á Seyðisfirði og í Neskaupstað vegna snjóflóðahættu eru enn í gildi. Í dag munu sérfræðingar Veðurstofunnar endurmeta stöðuna.

Fjöldi rafmagnsstaura brotnaði og línur slitnuðu vegna ísingar á Austurlandi í gær. Víða var rafmagnslaust á suðurfjörðum. Stærsta bæjarfélagið sem var án rafmagns var Stöðvarfjörður, þar sem 190 viðskiptavinir Rarik bjuggu við rafmagnsleysi stóran hluta dags.

Vonskuveður var einnig á Norðausturlandi. Á Þórshöfn hefur snjó kyngt niður. Akstri skólabíla var aflýst en skólahald var óbreytt. Sums staðar hafði fennt svo rækilega fyrir dyr á húsum að ekki var hægt að opna og var kennara einum komið til bjargar og mokað frá dyrum hans. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem tekin var í grunnskólanum á Þórshöfn, sást ekki út um glugga skólans fyrir snjó.

Að sögn Líneyjar Sigurðardóttur, fréttaritara Morgunblaðsins á Þórshöfn, tóku yngstu nemendurnir margir snjónum og vonda veðrinu fagnandi og vildu fara út í skaflana í frímínútum, þó ekki væri það skylda.

Umfjöllunina í heild sinni má nálgast í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert