Alltaf er gott þegar upptakasvæði snjóflóða losa sig við snjó en það kemur í veg fyrir að snjórinn byggist upp í stærri snjóflóð sem geta fallið síðar meir.
Þetta segir í tilkynningu ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands.
Greint var frá fyrr í dag að í morgun hefðu þrjú flóð komið í ljós ofan við byggðina úr Skágili, Nesgili og Bakkagili sem líklega féllu í gærkvöldi.
Eru flóðin meðalstór og fara vel út úr giljunum en ógna þó ekki byggð.
„Það er alltaf gott að upptakasvæði snjóflóða losi sig við snjó svo hann byggist ekki upp í stærri snjóflóð síðar meir,“ segir í tilkynningunni.
Einnig kemur fram í tilkynningunni að á Seyðisfirði virðist hafa snjóað talsvert meira í gær og fyrradag og sé þar nú mikill snjór í fjöllum. Þar hafi éljabakkar verið í dag og sé því enn rýming þar í gildi.
Það er þó gert ráð fyrir að þar stytti upp í dag og hægt verði þá að aflétta rýmingu líkt og hefur verið gert í Neskaupstað.