„Uggvænlegur undirtónn“

Anna Rós Árnadóttir ljóðskáld hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör 2025.
Anna Rós Árnadóttir ljóðskáld hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör 2025. mbl.is/Hákon

Anna Rós Árnadóttir hlýtur Ljóðstaf Jóns úr Vör 2025 fyrir ljóð sitt „skeljar“. Verðlaunin voru afhent rétt í þessu í Salnum en þau eru jafnan veitt að lokinni samkeppni þar sem öllum er frjálst að senda inn frumsamin ljóð á íslensku, og undir dulnefni. Alls bárust 270 ljóð í keppnina í ár.

„Þetta kom á óvart. Ég hélt samt mjög innilega með þessu ljóði þegar ég sendi það inn svo ég er mjög upp með mér yfir að dómnefndin hafi verið á sömu blaðsíðu,“ segir Anna Rós í samtali við Morgunblaðið. 

Ragnar í öðru sæti og Kari Ósk í þriðja

Lista- og menningarráð Kópavogs og Ritlistarhópur Kópavogs standa fyrir verðlaununum en þau hafa verið veitt frá árinu 2001 í minningu skáldsins Jóns úr Vör, sem lést í mars 2000. Veitt eru peningaverðlaun og verðlaunaskáldið fær til varðveislu í eitt ár silfurskreyttan göngustaf, sem var í eigu Jóns úr Vör.

Í öðru sæti hafnaði Ragnar H. Blöndal með ljóðið „Japanskir morgnar“ en Kari Ósk Grétudóttir hlaut þriðju verðlaun fyrir ljóðið „Aðrar lendur“.

Aðrir sem hlutu viðurkenningu fyrir ljóð sín að þessu sinni voru Jón Hjartarson, Baldur Garðarsson, Bjargey Ólafsdóttir, Sunna Dís Másdóttir og Vala Hauks.

Anna Rós segist hafa haldið innilega með verðlaunaljóðinu sínu.
Anna Rós segist hafa haldið innilega með verðlaunaljóðinu sínu. mbl.is/Hákon

„Listilega einfalt“

Dómnefnd skipuðu Guðrún Hannesdóttir, Þórdís Helgadóttir, formaður, og Þórður Sævar Jónsson en í umsögn hennar segir:

„Sigurljóðið er í senn seiðandi og blátt áfram. Skáldið yrkir af nákvæmni og næmni fyrir tungumálinu, sem er listilega einfalt og flæðir áreynslulaust. En undirtónninn er djúpur og uggvænlegur.

Þetta er ljóð um lífsháska, kvíða og óumflýjanlegt skapadægur. Strax í upphafi býður óvænt staðhæfing okkur að íhuga samband okkar við hafið, sem er okkur Íslendingum nærtæk og óhjákvæmileg birtingarmynd ógnar. Eftir því sem á líður færist náttúruaflið nær, með stigvaxandi háska.

Ljóðið bregður upp skýrum, ágengum og jafnvel skondnum myndum og segir eftirminnilega sögu, án þess þó að endanleg merking þess sé höggin í stein. Það talast á við bæði þjóðsagnaarfinn og bókmenntasöguna. Loks slær skemmtilega óræður og óvæntur snúningur í síðasta erindinu ískyggilegan tón og festir ljóðið rækilega í minni.“

Ljóðasamkeppni grunnskóla

Samhliða Ljóðstafnum voru að vanda einnig veitt verðlaun í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs.

Jóhanna Katla Kristjánsdóttir úr 6. bekk í Kársnesskóla hlaut fyrstu verðlaun fyrir ljóðið „Hugleiðsluljóð“, Friðrik Bjarki Sigurðsson úr 6. bekk í Salaskóla hlaut önnur verðlaun fyrir ljóðið „Veðrið“ og Kristjana Lillý Pétursdóttir úr 10. bekk í Lindaskóla hlaut þriðju verðlaun fyrir ljóðið „Hríðin“.

Viðtal við Önnu Rós verður birt á menningarsíðum Morgunblaðsins í fyrramálið, miðvikudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert