Vörubíll valt á hliðina

Ökumaðruinn hlaut minni háttar meiðsli.
Ökumaðruinn hlaut minni háttar meiðsli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í dag tilkynning um vinnuslys þar sem vörubíll valt á hliðina. Ökumaðurinn hlaut minni háttar meiðsli. 

Lögreglustöð fjögur sinnti útkallinu en hún sinnir verkefnum í Mosfellsbæ, Grafarvogi og Árbæ. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um verkefni hennar frá því klukkan 5 í morgun og til klukkan 17 í dag. Alls voru 75 mál skráð í kerfum lögreglu á tímabilinu. 

Keyra um án ökuréttinda og undir áhrifum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkrum útköllum í dag þar sem ökumenn voru að keyra ýmist án ökuréttinda, undir áhrifum fíkniefna eða hvort tveggja. 

Lögreglustöð eitt, sem sinnir verkefnum í stórum hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi, hafði afskipti af tveimur slíkum málum.

Lögreglustöð þrjú, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti, handtók einn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og var hann án ökuréttinda. Lögreglustöð fjögur hafði afskipti af einum ökumanni sem keyrði um án ökuréttinda. 

Ekið á gangandi vegfarendur

Ekið var á tvo gangandi vegfarendur í umdæmi lögreglustöðvar þrjú. Meiðsli vegfarenda voru minni háttar en þeir fóru á bráðamóttökuna til skoðunar. 

Lögreglustöð tvö, sem sinnir verkefnum í Hafnafirði og Garðabæ, barst tilkynning um mann í annarlegu ástandi. Borin voru kennsl á manninn og hann færður í fangaklefa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert