Ákærður fyrir tilraun til manndráps á Vopnafirði

Karlmaður, sem veittist að fyrrverandi sambýliskonu sinni á Vopnafirði með …
Karlmaður, sem veittist að fyrrverandi sambýliskonu sinni á Vopnafirði með rúllubaggateini í október, hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi. Þá hefur hann verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 4. febrúar. mbl.is/Jón Sigurðsson

Karl­maður sem réðst á fyrr­ver­andi sam­býl­is­konu sína og barnsmóður á Vopnafirði í októ­ber hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi. Maðurinn hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 4. febrúar en Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar um.

Er manninum gefið að sök að hafa meðal annars veist að konunni með rúllubaggateini og notað hann til að reyna að stinga hana í kviðinn, ýta við henni þar til hún féll til jarðar og síðan notað teininn til að þrengja að hálsi hennar.

Uppfyllir ekki skilyrði sjúkrahúsvistunar

Maðurinn skaut gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms frá 7. janúar til Landsréttar á þeim grundvelli að úrskurðinum yrði breytt á þann veg að maðurinn yrði vistaður á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun í stað þess að sæta gæsluvarðhaldi.

Landsréttur staðfesti sem segir úrskurð héraðsdóms og vísaði til þess að mat meðferðarlæknis liggi fyrir um að maðurinn þurfi ekki lengur á sjúkrahúsvist að halda en hann var vistaður á sjúkrahúsi frá 19. október, þegar hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins, og til 13. nóvember á síðasta ári. Síðan þá hefur hann sætt gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði.

Auk þess vísar Landsréttur til bréfs frá Fangelsismálastofnun þar sem fram kemur að maðurinn sé líkamlega og andlega bær að sæta gæsluvarðhaldi. Í svari stofnunarinnar segir að fangar eigi rétt á heilbrigðisþjónustu í fangelsi, hvort sem þeir sæti gæsluvarðhaldi eða afpláni refsidóm. Stofnunin fái upplýsingar um það ef heilbrigðisstarfsfólk telji að fangar séu það veikir að þeir geti ekki dvalið í fangelsi. Engar slíkar upplýsingar hafi borist um manninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert