„Bjartsýni mín hefur minnkað síðustu daga“

Heiða Björg kveðst ekki vera bjartsýn á það að samningar …
Heiða Björg kveðst ekki vera bjartsýn á það að samningar náist fyrir mánaðamót. mbl.is/Margrét Þóra

Bjartsýni á það að samningar náist í kjaradeilum kenn­ara, rík­is og sveit­ar­fé­laga fyrir mánaðamót hefur minnkað á síðustu dögum. Mögulegt allsherjarverkfall kennara hefði þung áhrif á sveitarfélög landsins.

Þetta segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við mbl.is.

Ef samn­ing­ar nást ekki fyr­ir 1. fe­brú­ar hefjast verk­fallsaðgerðir á ný og kenn­ar­ar í 14 leik­skól­um og sjö grunn­skól­um leggja niður störf. Þá hef­ur Fé­lag fram­halds­skóla­kenn­ara gefið út að farið verði í at­kvæðagreiðslu um ótíma­bund­in verk­föll í nokkr­um fram­halds­skól­um, eft­ir að friðarskyldu lýk­ur um mánaðamót­in.

Kveðst ekki bjartsýn á að samningar náist

Ertu bjartsýn á að samningar náist fyrir mánaðamót?

„Nei, mér heyrist tónninn vera annar,“ segir Heiða en bætir við að hún sé hóflega bjartsýn.

„Meðan fólk talar saman er alltaf von og þá er maður alltaf með bjartsýnina að leiðarljósi. En ég er hóflega bjartsýn á það að það takist. Það má segja að bjartsýni mín hefur minnkað síðustu daga.“

Deiluaðilar funduðu stíft í Karphúsinu í dag og að fundi loknum sagði Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is að annar fundur yrði ekki boðaður að svo stöddu. 

„Það hef­ur verið þrautreynt að kanna hvort að hægt sé að finna ein­hvern grund­völl sem aðilarn­ir gætu notað til að lenda þess­ari deilu og það hef­ur ekki tek­ist ennþá,“ sagði Ástráður.

Magnús segir allsherjarverkfall koma til greina

Magnús Þór Jóns­son, formaður Kenn­ara­sam­bands Íslands, ræddi við Ríkisútvarpið um hádegisbil þar sem hann sagðist aðspurður ekki útiloka allsherjarverkfall hjá öllum kennarafélögum.

„Ég virði auðvitað baráttu kennara fyrir sínum launum og kjörum. Okkur finnst við hafa gengið langt í að bjóða þeim sáttahönd þannig við munum vinna áfram að sátt í bili,” segir Heiða Björg.

Hefði allsherjarverkfall þung áhrif á sveitarfélögin?

„Það hefur auðvitað þung áhrif á sveitarfélögin að því leyti að þetta er eitt af stærstu verkefnum sveitarfélaga, að ala upp börn og mennta þau. Líf fólks sem treystir á þá menntun og oft viðveru – sérstaklega lítill barna – fer auðvitað úr skorðum.“

Hún segir sveitarfélögin hafa verið í þessum viðræðum af heilum hug og hún segir skipta máli að kennarar séu sáttir með sín kjör og starfsaðstæður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert