Ekki er ástæða til þess að boða samninganefndir kennara, ríkis og sveitarfélaga aftur að fundarborðinu með ríkissáttasemjara eftir strangt fundarhald í dag. Langt er á milli deiluaðila og að óbreyttu munu verkföll hefjast um mánaðamótin.
Þetta segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.
„Það voru fundir í dag bæði með framhaldskólakennurum og grunnskólakennurum. Það var niðurstaða að núna lok dags að það er ekki að svo stöddu ástæða til að boða til frekari funda,“ segir Ástráður.
Fundur hófust klukkan 9 í morgun.
Verður þá að óbreyttu ekki samið fyrir mánaðamót?
„Já, það má segja það. Það hefur verið þrautreynt að kanna hvort að hægt sé að finna einhvern grundvöll sem aðilarnir gætu notað til að lenda þessari deilu og það hefur ekki tekist ennþá,“ segir hann.
Ef samningar nást ekki fyrir 1. febrúar hefjast verkfallsaðgerðir á ný og kennarar í 14 leikskólum og sjö grunnskólum leggja niður störf. Þá hefur Félag framhaldsskólakennara gefið út að farið verði í atkvæðagreiðslu um ótímabundin verkföll í nokkrum framhaldsskólum, eftir að friðarskyldu lýkur um mánaðamótin.
Ástráður segir að hann muni ræða við deiluaðila og fylgjast grannt með stöðu mála. Ekki verður boðað til fundar nema ástæða sé að ætla að deiluaðilar geti samið.
„Það verður auðvitað boðað til fundar um leið og einhver ástæða er til þess. En það verður eitthvað að hreyfast ef það á að nást saman.“
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, ræddi stuttlega við Ríkisútvarpið um hádegisbil þar sem hann sagðist aðspurður ekki útiloka allsherjarverkfall hjá öllum kennarafélögum.
Ástráður segir að það hafi ekki verið rætt á fundum dagsins í dag.