Búseti kærir Reykjavíkurborg

Stórvirkar vinnuvélar að störfum við vöruhúsið.
Stórvirkar vinnuvélar að störfum við vöruhúsið. mbl.is/Karítas

Búseti hefur lagt fram stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna byggingar vöruskemmunnar við Álfabakka 2 þar sem þess er krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar og ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi.

Erlendur Gíslason, lögmaður hjá LOGOS, sem gætir hagsmuna Búseta í málinu, segir framkvæmdina brjóta í bága við lög og reglur sem um slíka framkvæmd gildi og hann gerir alvarlegar athugasemdir við framkvæmd og afgreiðslu þeirra leyfa sem gefin voru út vegna byggingarinnar.

„Í byggingarleyfinu kemur fram að öll framkvæmd skuli unnin eftir samþykktum aðal- og séruppdráttum. Þetta virðist ekki uppfyllt því byggingarleyfið var gefið út ári áður en séruppdrættirnir voru lagðir fram, um það leyti sem húsið var risið,“ segir Erlendur.

Hann segir mannvirkið og fyrirhugaða notkun þess jafnframt brjóta í bága við skipulag. Leggja hefði þurft mat á hvort framkvæmdin væri umhverfismatsskyld, eins og lög kveða á um ef gólfflötur byggingar fyrir matvælaiðnað er yfir 1.000 fm, en gólfflötur kjötvinnslunnar í Álfabakka er 3.200 fm.

Íbúar fengu villandi svör

„Í svari skipulagsfulltrúa til íbúa var lítið lagt upp úr áhrifum framkvæmdarinnar og fullyrt að byggingarmagnið myndi aðeins ná upp í eina og hálfa hæð. Þetta svar gaf mjög óljósa og villandi mynd af því ferli og ákvörðunum sem síðar voru teknar,“ segir Erlendur.

Stjórnsýslukæran barst nefndinni 14. janúar sl. Frestur uppbyggingaraðila og borgarinnar til að senda umsögn til nefndarinnar rann út í gær. Í umsögn Álfabakka 2a ehf. kemur fram að umfangsmikil samskipti hafi verið við sérfræðinga Reykjavíkurborgar. Í umsögn borgarinnar segir að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að mannvirkið samræmist ekki lögum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert