Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, vandar fjölmiðlum ekki kveðjurnar og segir að þeir sem hafi tapað völdum í síðustu kosningum eyði allri sinni orku í að sverta Flokk fólksins.
Þetta kemur fram í færslu hennar á facebook.
„Alþingi ekki einu sinni komið saman hvað þá að þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hafi komið fram. Hvernig dettur nokkrum manni i hug að tala um svikin loforð án þess að hafa séð verkin sem við ætlum að vinna. Óvandaðir falsfréttamiðlar í eigu auðmanna og ákveðinna stjórnmálaafla koma fram við fólk eins og fífl,” skrifar Inga.
Ekki er ljóst til hvers Inga vísar í færslu sinni en undanfarna daga hefur mikil umræða verið um Flokk fólksins í kjölfar þess að Morgunblaðið greindi frá því að flokkurinn hafi fengið styrkveitingar frá ríkinu í trássi við lög. Um er að ræða 240 milljónir króna sem Inga Sæland kveðst ekki ætla að skila til baka.
Hún hvetur fólk til að missa ekki vonina því hún sé allt um kring.
Hún segir Flokk fólksins hafa haft hátt í stjórnarandstöðu og nú sé flokkurinn kominn með stjórnartaumana og samfélagið allt muni fá að „njóta þess að þið gáfuð okkur ykkar dýrmætu atkvæði.“