Maðurinn sem ákærður er fyrir að hafa banað móður sinni í Breiðholti í fyrra er sakaður um að hafa stungið hana að minnsta kosti 22 sinnum með hnífi í brjóstsvæði, handleggi og hendur, en hnífstungurnar gengu m.a. inn í hægra lunga sem leiddi til dauða hennar.
Þetta kemur fram í ákæru málsins sem mbl.is hefur undir höndum.
Maðurinn er ákærður fyrir manndráp og stórfellt brot í nánu sambandi og er þess krafist að hann verði dæmdur til refsingar og greiði allan sakarkostnað.
Þingfesting fór fram í málinu fyrr í dag þar sem kom fram að maðurinn hefur beðið um frest til að taka afstöðu í málinu.
Í ákærunni kemur fram að fjórar einkaréttarkröfur séu lagðar fram í málinu, tvær frá konum og tvær frá karlmönnum, en nöfn viðkomandi hafa verið fjarlægð úr ákærunni.
Í öllum þeirra er þess krafist að hann greiði 6.000.000 krónur auk vaxta.
Jafnframt er þess krafist að maðurinn greiði 334.500 í útfararkostnað ásamt dráttarvöxtum.