Ekki hræddur við að taka að mér ábyrgðarstörf

Guðlaugur Þór Þórðarson liggur enn undir feldi.
Guðlaugur Þór Þórðarson liggur enn undir feldi. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hafa fjölmörg samtöl átt sér stað og margir hafa hvatt mig áfram en mér finnst hins vegar mjög mikilvægt að allir hugsi á þann veg að við verðum að koma sterk og sameinuð frá landsfundi.“

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, spurður hvort hann hyggist bjóða sig fram til embættis formanns flokksins á landsfundi hans um önnur mánaðamót. Guðlaugur Þór liggur enn undir feldi eins og íslensk hefð er fyrir.

Segir hann það verk margra að láta það raungerast að flokkurinn komi sameinaður frá landsfundi. Vitað sé í hvaða stöðu flokkurinn er og mikilvægt að hann nái fyrri styrk. Segir Guðlaugur grundvöllinn af árangri vera samheldnina sem einkenndi störf flokksins lengst af.

Reyna að lágmarka núning og átök

Áttu við að þið sem hafið gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn þurfið að taka samtalið og velja flokknum formann áður en haldið verður á landsfund?

„Ég tel það verkefni okkar allra,“ svarar hann. „Það er ákall um að við vinnum þetta saman og ég er sammála því ákalli.“ Guðlaugur bendir á að landsfundurinn sé ekki á morgun og áréttar að á landsfundi er ekki kosning meðal allra flokksmanna.

„Þar eru fulltrúar sem þangað koma og ákveða bæði forystu og áherslur flokksins. Það er því mjög mikilvægt að við vöndum til verka og göngum þannig fram að við getum einbeitt okkur að því sem skiptir máli, sem er að vinna að framgangi sjálfstæðisstefnunnar og takast á við þá sem eru ósammála okkur í stjórnmálum. Orka okkar á að fara í það og við eigum að reyna að lágmarka núning og átök innan okkar eigin raða.“

Með mestu þingreynsluna

Hefur þú gert upp hug þinn um hvern þú sjáir leiða flokkinn áfram hvort sem það sért þú sjálfur eða einhver annar?

„Allir vita að ég er með mestu þingreynsluna ásamt Þorgerði Katrínu og ég hef ekki verið hræddur við að taka að mér ábyrgðarstörf. Það hefur ekkert breyst en ég held hins vegar að alltaf, og sérstaklega núna, eigi menn að hugsa hlutina með þeim hætti að það kalli á sem mesta samstöðu,“ segir Guðlaugur Þór og bætir við að ekki sé um að ræða verk eins manns, tveggja eða þriggja. Hann heyri þennan tón í samtölum sínum við flokksmenn og hafi heyrt lengi.

Óeiningin veikir

Áttu síður von á að það verði fleiri en eitt formannsefni í framboði?

„Ég ræð litlu um það og það getur allt gerst í þessu. Við getum alveg séð kosningabaráttu, sem er líklegra en hitt, en þá er líka mikilvægt að hún fari vel fram.

Við finnum það og þekkjum í sögu Sjálfstæðisflokksins að við náum bestum árangri þegar það er samstaða innan okkar raða – óeining innan raða Sjálfstæðisflokksins veikir okkur, það er bara staðreynd.“

„Við erum breiðfylking

Segir Guðlaugur alla vita af mikilvægi þess að flokkurinn einbeiti sér að pólitískum andstæðingum sínum á næstu misserum og ekki veiti af.

„Við erum komin í stjórnarandstöðu og erum kominn með vinstri stjórn sem við sjáum hvert stefnir. Það er mjög mikilvægt að vera á varðbergi gagnvart þeim gildum sem við stöndum fyrir og að við ræktum þau sem aldrei fyrr.“

Segir hann flokkinn sannarlega þurfa að ná til fólks sem ekki er að styðja hann lengur.

„Við erum breiðfylking og það er mjög mikilvægt að við gefum skýr skilaboð, ekki bara í orði heldur líka á borði, að við viljum og förum að sækja fólk sem var með okkur áður og á að vera með okkur en er því miður ekki með okkur nú.“

Guðlaugur Þór fór gegn Bjarna Benediktssyni í formannsslag á landsfundi flokksins 2022. Hlaut hann 40% atkvæða gegn 59% Bjarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert