Fer annan hring í borginni og framkvæmdir frestast

Unnur segir að rangt hafi verið staðið að útgáfu leyfisins.
Unnur segir að rangt hafi verið staðið að útgáfu leyfisins. Samsett mynd

„Þetta snýr fyrst og fremst að Reykjavíkurborg og húseigandanum. Það virðist hafa verið rangt staðið að útgáfu leyfisins, þannig mér sýnist að þetta fari bara annan hring í borginni og að þessar framkvæmdir frestist. Þannig lítur þetta út fyrir mér eins og er.” 

Þetta segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, í samtali við mbl.is. 

Vinnumálastofnun og framkvæmdasýsla ríkisins funduðu í dag um ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að fella úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa borgarinnar um að breyta JL-húsinu við Hringbraut í búsetuúrræði fyrir hælisleitendur.

Í nóvember í fyrra samþykkti skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar tillögu þess efnis að breyta húsnæðinu í búsetuúrræði en nágranni kærði niðurstöðuna á þeirri forsendu að ekki væri heimild fyrir sértæku búsetuúrræði á lóðinni. Einungis væri heimilt að hýsa matvöruverslun og þjónustu. 

Vonast að konurnar fái að vera áfram

Til stóð að fjórar hæðir hússins færu undir búsetuúrræðið en í heild var heimild fyrir 400 einstaklinga í húsinu. Reykjavíkurborg hafði þegar gefið út að áætlaður fjöldi hælisleitenda sem myndi gista í húsinu færi ekki yfir 326 manns. 

Þegar höfðu 60 konur sem komu einar til landsins flutt inn í húsnæðið. Hafa því efstu tvær hæðir hússins þegar verið teknar í notkun. 

Aðspurð segist Unnur vonast til þess að þær konur sem hafi verið fluttar inn í húsið fái að vera þar meðan málið er enn í ferli. Hún segir næstu skref vera í höndum húseigandans sem þurfi að afla tilskilinna leyfa og senda inn nýja umsókn til borgaryfirvalda. 

Framkvæmdasýslan mun funda með húseigendum á næstu dögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert