Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem á að skila tillögum um hagræðingu í ríkisrekstri. Mun hópurinn meðal annars styðjast við tillögur almennings sem hafa borist síðustu vikur.
Fjórir einstaklingar hafa verið skipaðir í starfshópinn sem á að skila tillögum sínum þann 28. febrúar. Hafa þau þegar tekið til starfa.
Hópinn skipa Björn Ingi Victorsson formaður, sem er endurskoðandi og forstjóri Steypustöðvarinnar, Gylfi Ólafsson, hagfræðingur og fyrrverandi forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Hildur Georgsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum og fyrrverandi yfirlögfræðingur Ríkiskaupa, og Oddný Árnadóttir, framkvæmdastjóri Landssambands eldri borgara (LEB) sem áður var deildarstjóri hjá Valitor.
„Hópurinn mun m.a. vinna úr samráði ríkisstjórnar við almenning um hagræðingu í ríkisrekstri sem lýkur í dag. Einnig verður litið til fyrri úttekta sem til eru um sama efni auk ábendinga frá forstöðumönnum hjá ríkinu og ráðuneytum,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Þar er jafnframt vitnað í Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra sem þakkar þjóðinni fyrir sýndan áhuga og aðstoð í samráðinu.
„Við í ríkisstjórninni höfum mikla trú á þessari vinnu og hlökkum til að fá í hendur tillögur hagræðingarhópsins. Þetta er öflugur hópur með fjölbreytta reynslu úr atvinnulífi og opinberum rekstri,“ segir Kristrún.