„Hann neitaði ekki sök á þessum fundi“

Snæbjörn Brynjarsson er leikhússtjóri í Tjarnabíói.
Snæbjörn Brynjarsson er leikhússtjóri í Tjarnabíói. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tjarnarbíó grunar Sindra Þór Sigríðarson um fjárdrátt upp á a.m.k. 13 milljónir króna. Sindri hafði prókuru hjá leikhúsinu í þrjú ár en hann lét af störfum sem framkvæmdastjóri um liðin áramót. 

Snæbjörn Brynjarsson leikhússtjóri segist hafa rætt málið við Sindra sem hafi ekki neitað sök að viðstöddum lögmönnum. Hann hafi þó ekki skrifað undir neitt þar sem hann viðurkennir sök. Að svo stöddu virðist sem fjárdrátturinn snúi eingöngu að leikhúsinu sjálfu en ekki þeim listamönnum sem komið hafa fram. 

Tjarnarbíó hefur þurft að reiða sig á styrki frá Reykjavíkurborg til að geta haldið rekstrinum gangandi undanfarin ár. 

Kemur upp eftir uppsögn

Snæbjörn tók við starfi sem leikhússtjóri fyrir nokkrum mánuðum og vildi strax færa sig nær rekstrarhlið þess. Að sögn hans hafi hann haft sitthvað út á störf Sindra að setja en hann hafi aldrei grunað hann um neitt glæpsamlegt.

„Það voru kannski ósiðir og venjur sem ég gerði athugasemdir við og eftir að hafa reynt að færa málin til betri vegar í þrjá mánuði þá neyddist ég til að segja honum upp. Það var svo eftir jólafrí sem ég er að fara yfir reksturinn sem ég rekst á færslu sem mér finnst eitthvað skrítin og það leiðir til þess að ég hef samband til sérfræðings til að útskýra það,“ segir Snæbjörn.

Sindri hóf störf sem markaðsstjóri árið 2018 en hann hafi fengið prókúru og tekið yfir rekstur félagsins um áramótin 2022. Sinnti hann starfinu til síðustu áramóta.

Neitaði ekki sök

Hann segir að útlit sé fyrir að fjárdrátturinn sé að lágmarki 13 milljónir króna en upphæðin gæti vel hækkað því sumt sé vel falið.

„Við Sindri höfum hist með lögmanni og hann neitaði ekki sök á þessum fundi,“ segir Snæbjörn.

Hann segir að Sindra hafi verið boðið að gera hreint fyrir sínum dyrum við að hjálpa til við að upplýsa málið og ganga frá skuldum sínum en engin viðbrögð hafi borist við því.

Beinist ekki að listamönnum

Spurður segir Snæbjörn að flest bendi til þess að fjárdrátturinn beinist fyrst og fremst að leikhúsinu en ekki þeim listamönnum sem hafa komið fram.

„Ég hef ekki enn rekist á neitt sem bendir til þess að einhver tiltekinn listamaður hafi verið snuðaður en ég get ekkert fullyrt um það. Þeir listamenn sem hafa skemmt á þessum tíma eru velkomnir til mín á skrifstofuna og fara yfir sín mál,“ segir Snæbjörn.

Þungur rekstur

Rekstur Tjarnarbíós hefur verið erfiður undanfarin ár og hefur verið rekið með styrkjum frá Reykjavíkurborg. Þannig fékk leikhúsið t.a.m. um 20 milljóna króna stuðning frá borginni á síðasta ári svo reksturinn gæti staðið undir sér. Af því má sjá að fjárdráttur getur reynst talsvert högg fyrir leikhúsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert