„Hefur tekist að virkja fólkið í landinu með okkur“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég get ekki annað en þakkað þjóðinni fyr­ir áhug­ann og aðstoðina,“ seg­ir Kristrún Frosta­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra þegar hún er spurð út í viðbrögð við beiðni rík­is­stjórn­ar­inn­ar um til­lög­ur frá al­menn­ingi um hagræðingu í rekstri rík­is­ins.

Verk­efnið ber heitið Ver­um hag­sýn í rekstri rík­is­ins og hef­ur al­menn­ing­ur sent inn til­lög­ur sín­ar í sam­ráðsgátt frá því í byrj­un janú­ar en í dag er síðasti dag­ur­inn sem fólk get­ur sent inn til­lög­ur.

Þegar þetta er skrifað hafa 3.633 til­lög­ur borist frá al­menn­ingi.

Hef­ur jarðtengt póli­tík­ina og stjórn­sýsl­una

„Við erum mjög ánægð með viðtök­urn­ar og þetta er skemmti­legt verk­efni sem við bind­um mikl­ar von­ir við. Þetta hef­ur gengið mjög vel og hef­ur jarðtengt póli­tík­ina og stjórn­sýsl­una. Okk­ur hef­ur tek­ist að virkja fólkið í land­inu með okk­ur. Maður frétt­ir af umræðum á kaffi­stof­um víða um land og fólk er orðið aðeins meira meðvitað, sem er mjög þakk­látt,“ seg­ir Kristrún.

Hún seg­ir að rík­is­stjórn­in hafi ekki verið með fast­mótaðar vænt­ing­ar um hversu marg­ir myndu senda inn til­lög­ur en þetta sýni breidd­ina í verk­efn­inu og að þjóðin hafi áhuga á því að sjá að vel sé farið með fjár­magn hjá rík­inu og hinu op­in­bera og telji sig hafa eitt­hvað fram að færa.

Hef­urðu náð að gefa þér ein­hvern tíma til að skoða til­lög­urn­ar?

„Ég hef skoðað eina og eina um­sögn en er svo eins marg­ir aðrir að leyfa mér að hlakka til að sjá niður­stöðurn­ar úr þessu sam­ráði,“ seg­ir hún.

For­sæt­is­ráðherra seg­ir að unnið sé hörðum hönd­um að því að taka til­lög­urn­ar sam­an, fá töl­fræði og grófa flokk­un á þeim til­lög­um og ábend­ing­um sem ber­ast.

„Það er fólk í þessu en svo erum við líka að nýta okk­ur tækn­ina með gervi­greind ásamt mann­legu hend­inni,“ seg­ir Kristrún.

Kristrún seg­ir að næsta skref verði að af­henda sér­stök­um hagræðing­ar­hópi niður­stöðu þessa sam­ráðs og fara inn í stærra verk­efni. 

Óskuðu eft­ir til­lög­um frá ráðuneyt­um

For­sæt­is­ráðherra og Daði Már Kristó­fers­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, sendu for­stöðumönn­um hjá rík­inu bréf þar sem þeir voru hvatt­ir til að koma með hug­mynd­ir um hagræðingu hjá hinu op­in­bera.

„Við óskuðum eft­ir til­lög­um frá for­stöðumönn­um hjá rík­inu og vinna er haf­in við að taka þær til­lög­ur sam­an. Það er önn­ur dag­setn­ing sem fylg­ir því. Þá höf­um líka óskað eft­ir til­lög­um frá ráðuneyt­un­um sjálf­um, þannig að það eru ýms­ar leiðir til þess að skila þessu af sér,“ seg­ir hún.

Kristrún seg­ir að rík­is­stjórn­in sé einnig með eig­in hug­mynd­ir og það sé ým­is­legt sem komi út úr póli­tík­inni. Hún seg­ir að hlut­verk hagræðing­ar­hóps­ins verði að taka þetta allt sam­an og við bæt­ist fyrri út­tekt­ir, enda hafi heil­mikið verið gert.

Hagræðing­ar­hóp­ur­inn skil­ar inn til­lög­um í lok fe­brú­ar

„Þessi hagræðing­ar­hóp­ur er ekki endi­lega að fara að finna upp hjólið eða byrja al­veg á núllpunkti held­ur frek­ar að varpa ljósi á ým­is­legt sem hef­ur verið lagt fram áður.“

Hún seg­ir að hagræðing­ar­hóp­ur­inn muni skila inn til­lög­um til rík­is­stjórn­ar­inn­ar í lok fe­brú­ar.

„Eitt­hvað mun nýt­ast strax. Annað fer inn í fjár­mála­áætl­un en und­ir­bún­ing­ur að henni er haf­inn og mun birt­ast í fjár­mála­áætl­un sem kem­ur í byrj­un apr­íl­mánaðar. Svo verður auðvitað all­ur gang­ur á því hvers eðlis til­lög­urn­ar eru. Sum­ar er fram­kvæm­an­leg­ar til­tölu­lega hratt, annað þarf kannski ár í und­ir­bún­ing og enn annað þarf í raun­inni að miða út kjör­tíma­bilið.“

Alþingi verður sett 4. fe­brú­ar og dag­inn eft­ir flyt­ur Kristrún stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert