„Ég get ekki annað en þakkað þjóðinni fyrir áhugann og aðstoðina,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra þegar hún er spurð út í viðbrögð við beiðni ríkisstjórnarinnar um tillögur frá almenningi um hagræðingu í rekstri ríkisins.
Verkefnið ber heitið Verum hagsýn í rekstri ríkisins og hefur almenningur sent inn tillögur sínar í samráðsgátt frá því í byrjun janúar en í dag er síðasti dagurinn sem fólk getur sent inn tillögur.
Þegar þetta er skrifað hafa 3.633 tillögur borist frá almenningi.
„Við erum mjög ánægð með viðtökurnar og þetta er skemmtilegt verkefni sem við bindum miklar vonir við. Þetta hefur gengið mjög vel og hefur jarðtengt pólitíkina og stjórnsýsluna. Okkur hefur tekist að virkja fólkið í landinu með okkur. Maður fréttir af umræðum á kaffistofum víða um land og fólk er orðið aðeins meira meðvitað, sem er mjög þakklátt,“ segir Kristrún.
Hún segir að ríkisstjórnin hafi ekki verið með fastmótaðar væntingar um hversu margir myndu senda inn tillögur en þetta sýni breiddina í verkefninu og að þjóðin hafi áhuga á því að sjá að vel sé farið með fjármagn hjá ríkinu og hinu opinbera og telji sig hafa eitthvað fram að færa.
Hefurðu náð að gefa þér einhvern tíma til að skoða tillögurnar?
„Ég hef skoðað eina og eina umsögn en er svo eins margir aðrir að leyfa mér að hlakka til að sjá niðurstöðurnar úr þessu samráði,“ segir hún.
Forsætisráðherra segir að unnið sé hörðum höndum að því að taka tillögurnar saman, fá tölfræði og grófa flokkun á þeim tillögum og ábendingum sem berast.
„Það er fólk í þessu en svo erum við líka að nýta okkur tæknina með gervigreind ásamt mannlegu hendinni,“ segir Kristrún.
Kristrún segir að næsta skref verði að afhenda sérstökum hagræðingarhópi niðurstöðu þessa samráðs og fara inn í stærra verkefni.
Forsætisráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, sendu forstöðumönnum hjá ríkinu bréf þar sem þeir voru hvattir til að koma með hugmyndir um hagræðingu hjá hinu opinbera.
„Við óskuðum eftir tillögum frá forstöðumönnum hjá ríkinu og vinna er hafin við að taka þær tillögur saman. Það er önnur dagsetning sem fylgir því. Þá höfum líka óskað eftir tillögum frá ráðuneytunum sjálfum, þannig að það eru ýmsar leiðir til þess að skila þessu af sér,“ segir hún.
Kristrún segir að ríkisstjórnin sé einnig með eigin hugmyndir og það sé ýmislegt sem komi út úr pólitíkinni. Hún segir að hlutverk hagræðingarhópsins verði að taka þetta allt saman og við bætist fyrri úttektir, enda hafi heilmikið verið gert.
„Þessi hagræðingarhópur er ekki endilega að fara að finna upp hjólið eða byrja alveg á núllpunkti heldur frekar að varpa ljósi á ýmislegt sem hefur verið lagt fram áður.“
Hún segir að hagræðingarhópurinn muni skila inn tillögum til ríkisstjórnarinnar í lok febrúar.
„Eitthvað mun nýtast strax. Annað fer inn í fjármálaáætlun en undirbúningur að henni er hafinn og mun birtast í fjármálaáætlun sem kemur í byrjun aprílmánaðar. Svo verður auðvitað allur gangur á því hvers eðlis tillögurnar eru. Sumar er framkvæmanlegar tiltölulega hratt, annað þarf kannski ár í undirbúning og enn annað þarf í rauninni að miða út kjörtímabilið.“
Alþingi verður sett 4. febrúar og daginn eftir flytur Kristrún stefnuræðu forsætisráðherra.