Hópur foreldra sem stefnt hefur Kennarasambandi Íslands og Félagi leikskólakennara segir verkfallsaðgerðir kennara þegar hafa haft gríðarlega neikvæð áhrif á börn og fjölskyldur þeirra. Krefjast foreldrarnir viðurkenningar á því að ótímabundin verkföll í leikskólum hafi verið ólögmæt.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Málsóknarfélagi barna, sem foreldrarnir stofnuðu, en mbl.is greindi frá málsókninni fyrr í dag.
Um er að ræða hóp foreldra barna á fjórum leikskólum þar sem leikskólakennarar fóru í ótímabundnar verkfallsaðgerðir fyrir áramót. Foreldrarnir telja að börnum sínum hafi verið mismunað vegna þess að aðgerðirnar bitnuðu aðeins á litlum hópi um óákveðinn tíma. Verkföll á öðrum skólastigum voru tímabundin.
Verkfallsaðgerðirnar stóðu yfir í fimm vikur, eða þangað til þeim var frestað vegna samkomulags um friðarskyldu, sem samninganefndir kennara, ríkis og sveitarfélaga gerðu í lok nóvember.
„Málsóknin byggist á því að verkfallsaðgerðirnar, eins og þær eru úr garði gerðar, fari í bága við lögbundin réttindi félagsmanna til menntunar, fræðslu og velferðar, auk stjórnarskrárbundinna réttinda um bann við mismunun, jafnræði og krafna til meðalhófs,“ segir í tilkynningunni.
Í því samhengi sé vísað til tilkynninga frá umboðsmanni barna, sem taldi börnum mismunað vegna fyrirkomulags aðgerðanna.
Bent er á að börnin á leikskólunum fjórum; Drafnarsteini í Reykjavík, Holti í Reykjanesbæ, Ársölum á Sauðárkróki og leikskóla Seltjarnarness, hafi mátt þola verkfallsaðgerðir lengur en önnur skólabörn.
„Þrátt fyrir þetta standa börnin og fjölskyldur þeirra frammi fyrir þeirri óvissu, sem er til þess fallin að valda þeim mikilli vanlíðan og kvíða, að verkfallsaðgerðir muni halda áfram óbreyttar þann 1. febrúar nk.“
Segjast foreldrarnir ítrekað hafa sent fyrirspurnir og skorað á Kennarasambandið að breyta útfærslu verkfallsaðgerða, nú síðast í lok desember, en ekki verið virt svars.
Við það verði ekki unað og því séu foreldrarnir, fyrir hönd barna sinna, tilneyddir til að gera það sem í þeirra valdi standi til að gæta að velferð barnanna.
„Foreldrar hvetja nú sem áður viðkomandi aðila til að láta af þessum ótímabundnu skæruverkföllum enda er með þeim verið að láta lítinn hóp yngstu barna í skólakerfinu bera mestan þunga verkfallanna í flóknum kjaraviðræðum sem stranda á mun fleiri atriðum en launum kennara. Það er óforsvaranlegt.“