Kíghósti greinist aftur

Embætti landlæknis í Katrínartúni.
Embætti landlæknis í Katrínartúni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir greindust með kíghósta í síðustu viku, en ekkert tilfelli hafði greinst sex vikur þar á undan. Á síðasta ári gekk yfir bylgja kíghóstasmita, en þá greindust tæplega 100 tilfelli frá apríl til júní, en flest smitanna voru á höfuðborgarsvæðinu.

Báðir þeirra sem greindust voru á aldrinum 30-59 ára.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í vikuyfirliti embættis landlæknis á öndunarfærasýkingum.

Þar segir jafnframt að greiningar á RS veirusýkingu stefni niður á við og áfram greinist fáir með Covid-19.

Fjöldi inflúensutilfella hefur sveiflast nokkuð frá áramótum, en í síðustu viku greindust 46 með inflúensu. Eru nú 11 manns inniliggjandi á Landspítala vegna inflúensu, en af þeim voru sjö manns 65 ára og eldri, eitt barn á aldrinum 1-2 ára og annað á aldrinum 5-14 ára.

Í síðustu viku greindust 24 með RS veirusýkingu, en þar af var helmingur 65 ára eða eldri. Sex börn undir eins árs greindust í vikunni og sjö manns lágu inni á Landspítalanum með sýkinguna, þar af eitt barn undir eins árs aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert