Lokun skólans hefur leitt til fjölgunar íbúa

Húsnæði Laugargerðisskóla er nú til sölu.
Húsnæði Laugargerðisskóla er nú til sölu. Ljósmynd/Aðsend

Hús­næði Laug­ar­gerðis­skóla í Eyja- og Mikla­holts­hreppi á Snæ­fellsnesi er til sölu. Skól­an­um var lokað árið 2023 en þá voru nem­end­ur skól­ans fimmtán tals­ins.

Eyja- og Mikla­holts­hrepp­ur er eitt fá­menn­asta sveit­ar­fé­lag lands­ins en íbú­ar þar eru sam­kvæmt töl­um Hag­stof­unn­ar 123. Laug­ar­gerðis­skóla var lokað árið 2023 og var hann einn af fá­menn­ari grunn­skól­um lands­ins. 

Viðræður við for­eldra skiluðu ekki ár­angri

Mik­il óánægja var meðal for­eldra barna í Laug­ar­gerðis­skóla þegar skól­an­um var lokað árið 2023. Viðræður áttu sér meðal ann­ars stað um það að for­eldr­ar myndu taka yfir rekst­ur skól­ans. 

„Ég gæti talað í marga klukku­tíma og sagt sög­ur af þeim viðræðum. Við fór­um í viðræður við for­eldra en for­eldr­ar sýndu hvorki fram á það að þeir gætu leyst þetta fjár­hags­lega né fag­lega og við slit­um því viðræðunum,“ seg­ir Sig­ur­björg Ottesen, odd­viti hrepps­ins. 

Börn í sveit­ar­fé­lag­inu ganga í dag í skóla í Stykk­is­hólmi en að sögn Sig­ur­bjarg­ar geta for­eldr­ar sótt um und­anþágu og farið með börn­in sín í skóla ann­ars staðar. 

Fólk flutt aft­ur heim

Sig­ur­björg seg­ir að þrátt fyr­ir að ákveðin óánægja hafi verið með lok­un skól­ans þá hafi ákvörðunin haft sína kosti.

„Það er enn ákveðin undir­alda af óánægju meðal for­eldra en á móti kem­ur að fólk hef­ur flutt aft­ur heim en marg­ir fluttu í burtu vegna þess að Laug­ar­gerðis­skóli var of lít­ill og for­eldr­ar vildu koma börn­um sín­um í stærri skóla. Börn­um á grunn­skóla­aldri hef­ur því fjölgað í sveit­ar­fé­lag­inu.“

Eins og áður seg­ir eru íbú­ar sam­kvæmt nýj­ustu töl­um Hag­stof­unna 123 en við lok­un skól­ans voru íbú­ar sveit­ar­fé­lags­ins færri en hundrað.

Fé­lags­heim­ili og orku­skipti

Að sögn Sig­ur­bjarg­ar er hús­næðið nú í verðmats­ferli, sam­kvæmt fjár­hags­áætl­un er gert ráð fyr­ir því að fá 220 millj­ón­ir króna fyr­ir sölu skóla­bygg­ing­ar­inn­ar.

Stefn­an er sett á það að pen­ing­arn­ir fari í viðhald á fé­lags­heim­ili hrepps­ins og einnig er stefnt á það að fara í orku­skipti fyr­ir íbúa. Sig­ur­björg seg­ir að orku­skipt­in séu í ferli en að hún sjái fyr­ir sér að um varma­dælu­verk­efni verði að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert