Mögulega raskanir á flugi til Írlands og Skotlands

Biðlað er til farþega sem eiga flug í fyrramálið að …
Biðlað er til farþega sem eiga flug í fyrramálið að fylgjast vel með gangi mála. Samsett mynd/Sigurður Bogi

„Við fylgjumst vel með veðurspám og eins og staðan er núna er mögulegt að raskanir verði á flugi til Dublin og Glasgow í fyrramálið,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is. 

Búist er við ofsaveðri á Bretlandseyjum næsta sólarhringinn sem gæti stefnt lífi fólks í hættu. Hættan þykir mest á Írlandi, Norður-Írlandi og Skotlandi þar sem lægðin gengur að líkindum yfir úr suðvestri og færist meðfram norðvesturströnd Írlands áður en hún fer til Skotlands. 

Veðurstofa Írlands hefur gefið út rauða veðurviðvörun fyrir alla eyjuna og er það í fyrsta skipti sem slík viðvörun er gefin út fyrir Norður-Írland frá því viðvörunarkerfið var tekið upp árið 2011. 

Guðni segir að ef breytingar verði gerðar á flugi til þessara áfangastaða muni flugfélagið senda farþegum uppfærða ferðaáætlun. Biðlar hann til þeirra sem eiga bókað flug til Dublin eða Glasgow í fyrramálið að fylgjast vel með og tryggja að hafa tengiliðaupplýsingar réttar. 

Hægt er að fylgjast með stöðu flugferða á vef Isavia og í smáforriti Icelandair. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert