„Viðbrögðin eru með ýmsu móti. Sumum finnst að þetta sé ekki rétta aðferðin, meðan aðrir hrósuðu okkur fyrir framtakið,“ segir Ingibjörg Sigrún Stefánsdóttir, mannauðsstjóri hjá Eflu. Fyrirtækið óskaði í gær eftir samtali við dagforeldra með það fyrir sjónum að starfsfólk fyrirtækisins fengi forgang í vistun með börn sín.
Sjá mátti á Facebook-síðu dagforeldra þar sem Efla kynnti hugmyndir sínar að þeir sem tjáðu sig tóku misvel í hugmyndirnar og fannst þær jafnvel ósiðlegar.
Segir hún að Efla líkt og fjölmörg önnur fyrirtæki upplifað að starfsfólk eigi erfitt með að finna dagvist fyrir börn sín. Því hafi umræða um lausn á málinu sprottið meðal starfsfólks. Þá með því að leitast eftir því að semja beint við dagforeldra um vistun í nánd við skrifstofuhúsnæði fyrirtækisins á Lynghálsi. Í því skyni var sett inn fyrirspurn á Facebooksíðu dagforeldra þar sem fyrirtækið óskaði eftir því að setja sig í samband við dagforeldra til að kanna möguleikana.
Spurð segir Ingibjörg í skriflegu svari að fyrirtækið hafi ekki reiknað sérstaklega kostnað við slíkt fyrirkomulag í samhengi við kostað við að hafa starfsfólk heima með börnum sínum.
„Ekkert hefur verið reiknað út í þessu sambandi, þetta var einungis hugmynd sem kom upp í samræðum starfsfólk og ákveðið að kanna grundvöll fyrir slíku,“ segir Ingibjörg.