Stefnan foreldrum „til skammar og minnkunar“

Haraldur segir stefnuna aðför að kennurum barnanna.
Haraldur segir stefnuna aðför að kennurum barnanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður félags leikskólakennara segir það foreldrum til skammar og minnkunar að stefna Kennarasambandinu vegna verkfallsaðgerða, sem þeir telja ólögmætar. Verið sé að gera tilraun til að svipta kennara rétti sínum til að berjast fyrir bættum kjörum og þeir muni taka til varna, teljist málið dómtækt.

„Þetta er afar sérstök vegferð sem þessi þó litli hópur foreldra í þessum fjórum leikskólum er á. Þetta er auðvitað ekkert annað en aðför að kennurum barna þeirra því KÍ er auðvitað ekkert nema félagsfólkið sjálft og KÍ gerir ekkert í óþökk félagsfólks,“ segir Haraldur Freyr Gíslason, formaður félags leikskólakennara, í skriflegu svari til mbl.is.

„Hér er verið að gera tilraun til að svipta kennara þeim lagalega neyðarrétti að geta barist fyrir bættum kjörum og þá framtíðar afkomu sinnar og sinna sem og fyrir leikskólakerfinu öllu sem líður alla daga út um allt land vegna langvarandi skorts á fagfólki,“ segir hann jafnframt.

Haraldur F. Gíslason formaður Félags leikskólakennara.
Haraldur F. Gíslason formaður Félags leikskólakennara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonbrigðunum ekki lýst með orðum

Greint var frá því fyrr í dag að hópur foreldra á þeim leikskólum þar sem kennarar fóru í ótímabundnar verkfallsaðgerðir fyrir áramót hefði stefnt Kennarasambandinu, fyrir hönd barna sinna, vegna fyrirkomulags aðgerðanna. Foreldrarnir telja að börnum sínum hafi verið mismunað vegna þess að þær bitnuðu aðeins á litlum hópi um óákveðinn tíma.

Alls var farið í verkföll í níu leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum á síðasta ári, en aðgerðirnar voru aðeins ótímabundnar leikskólum. Á hinum skólastigunum var um tímabundnar aðgerðir að ræða.

„Nú þegar þessi stefna verður birt verður það opinbert hvaða foreldrar fóru í þessa skrítnu vegferð. Þetta er þeim til skammar og minnkunar og ég veit í raun ekki hvernig þeir ætla að horfa í augun á kennurum barna sinna eftir þetta. Ég hef heyrt í mörgum og vonbrigðunum sem kennararnir upplifa í garð þessa hóps verður vart lýst með orðum,“ segir Haraldur.

Kennarar muni taka til varna fyrir dómstólum.

„Við höfum þar góðan málstað að verja enda höfum við í öllu ferlinu farið í einu og öllu að lögum.“

Málið fær flýtimeðferð

Um er að ræða hóp for­eldra sem eiga börn í leikskólunum Drafnar­steini í Reykja­vík, Holti í Reykja­nes­bæ, Ársöl­um á Sauðár­króki og leik­skóla Seltjarn­ar­ness. 

Foreldrarnir stofnuðu sérstakt félag til að fá úr því skorið hvort fyr­ir­komu­lag verk­fallsaðgerðanna væri lög­legt.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku en aðalmeðferð fer fram um miðja næstu viku, en það fær flýtimeðferð fyrir dómstólum. 

Einar Örn Hannesson, foreldri í hópnum, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að vonir væru bundnar við að niðurstaða fengist í málinu nokkrum dómum eftir aðalmeðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert