„Tómar íbúðir“ nýttar sem orlofshús og undir rekstur

Orlofshús nema um þriðjungi tómra íbúða í Mýrdalshreppi.
Orlofshús nema um þriðjungi tómra íbúða í Mýrdalshreppi. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Þær íbúðir sem flokkaðar eru sem tómar hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eru oft nýttar sem orlofshús eða undir gistirekstur.

Þetta sýna niðurstöður frá sveitarfélögunum Langanesbyggð, Mýrdalshreppi, Grýtubakkahreppi og Dalabyggð. Þau eru hluti af þeim 25 sveitarfélögum sem eru í samstarfi við HMS til að fara betur yfir skráningar þeirra íbúða sem metnar eru sem tómar. 

HMS flokkaði yfir tíu þúsund íbúðir sem tómar á síðasta ári, en það jafngildir um 6,5% allra fullbúinna íbúða.

HMS skilgreinir allar íbúðir þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um fasta búsetu sem tómar íbúðir. Matið byggist á upplýsingum úr fasteignaskrá, ásamt lögheimilisskráningum frá Þjóðskrá og upplýsingum um virka leigusamninga í Leiguskrá HMS, auk þess sem tekið er tillit til einstaklinga sem ekki eru með skráð lögheimili á íbúð.

Íbúðirnar nýttar sem orlofshús

Fjögur framangreind sveitarfélög hafa nú skilað gögnum til HMS þar sem betur er farið yfir skráningu tómra íbúða.

Í skýrslu HMS segir að tæplega þrjár af hverjum fjórum íbúðum sem HMS metur sem tómar í Dalabyggð séu nýttar sem orlofshús, en í Grýtubakkahreppi sé tæplega helmingur slíkra íbúða nýttur sem orlofshús.

Orlofshús nemi aftur á móti fimmtungi af metnum heildarfjölda tómra íbúða í Langanesbyggð og um þriðjungi í Mýrdalshreppi.

Graf/HMS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert