Um 20% myndu kjósa að búa annars staðar

Framboð á hentugu leiguhúsnæði virðist mun takmarkaðra en framboð á …
Framboð á hentugu leiguhúsnæði virðist mun takmarkaðra en framboð á húsnæði til eignar þessi misserin. mbl.is/Baldur

Um tuttugu prósent leigjanda býr í hverfi eða á þeim stað sem viðkomandi myndi helst ekki kjósa að búa á. Hlutfallið er enn hærra meðal leigjenda með tvö eða fleiri börn á framfærslu, eða um þrjátíu prósent.

Til samanburðar myndu um sjö prósent húseigenda kjósa að búa í öðru hverfi eða á öðrum stað. Þetta kemur fram í skýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Þar segir að niðurstöðurnar gefi til kynna að framboð á hentugu leiguhúsnæði sé mun takmarkaðra en framboð á húsnæði til eignar þessi misserin.

Um helmingur leigjenda telur líklegt að hann skipti um húsnæði á næstu tólf mánuðum. 

Meðallengd þeirra 12.236 tímabundnu samninga sem skráðir voru í fyrra eru þrettán mánuðir.

Hækkaði um 3% á ári

Meðalleigufjárhæð á höfuðborgarsvæðinu í desember var 244 þúsund krónur eða um þrjú prósent hærri nú en á sama tíma árið 2023.

Hefur meðalleigufjárhæð nýrra samninga þannig hækkað mun minna en vísitala leiguverðs sem hefur hækkað um 12,6 prósent síðustu tólf mánuði.

„Hafa ber hugfast í því efni að leiguvísitalan byggir á leigusamningum um hefðbundnar íbúðir sem eru í eigu einstaklinga og fyrirtækja sem rekin eru í hagnaðarskyni. Rétt tæpur helmingur íbúða sem skráðar eru í Leiguskrá og eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu eru reknar á félagslegum forsendum, en þar eru íbúðir í eigu ríkis, sveitarfélaga, og húsnæðissjálfseignarstofnana,“ segir í skýrslu HMS.

Graf/HMS

Munurinn kominn í 30 þúsund

Á höfuðborgarsvæðinu hefur munur milli markaðsleigu og meðalleigu aukist úr 24 þúsund krónum á mánuði í 30 þúsund krónur á mánuði á síðustu 12 mánuðum.

Þá nam meðalleiguverð nýrra samninga á leiguíbúðum í eigu einstaklinga eða hagnaðardrifinna leigufélaga 275 þúsund krónum á höfuðborgarsvæðinu í desember. Til samanburðar nam meðalleiguverð nýrra samninga á slíkum íbúðum um 225 þúsund krónum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert