Síðdegis og í kvöld er útlit fyrir talsverða snjókomu, en í hægum vind sunnan- og suðvestanlands, einkum í uppsveitum Suðurlands, í Mýrdal og þaðan austur fyrir Kirkjubæjarklaustur. Allt að 20 til 30 sentimetrum á nokkrum klukkustundum, að því er segir í tilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.
Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands að það sé spáð suðaustan og austan 10-18 m/s í dag.
Þá er spáð rigningu eða slyddu með köflum á sunnanverðu landinu, en þar lægir seinnipartinn með talsverðri snjókomu. Hiti verður 0 til 6 stig. Yfirleitt verður þurrt norðan til og hlýnar smám saman upp fyrir frostmark.
Snýst í norðaustan 5-13 á austurhelmingi landsins á morgun og snjókoma eða slydda verður af og til. Hægari vindur verður vestan til og yfirleitt þurrt fram á kvöld. Hiti verður í kringum frostmark.