Samtökin '78 kalla eftir því að íslensk stjórnvöld fordæmi nýja tilskipun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta er snýr að málefnum hinsegin fólks.
Í yfirlýsingu stjórnar samtakanna segir að Trump hreinlega afneiti tilvist trans fólks og intersex fólks.
Segja þau utanríkisstefnu Íslands hafa einkennst af því að Ísland kalli eftir virðingu fyrir mannréttindum hinsegin fólks víða um heim.
Kalla samtökin eftir því að nýr utanríkisráðherra boði sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á sinn fund og komi sjónarmiðum Íslands skýrt á framfæri á alþjóðlegum vettvangi og í opinberum samskiptum við Bandaríkin á næstu mánuðum og árum.
Segja þau fjölda fyrirspurna hafa borist frá bandarísku hinsegin fólki um hvernig hægt sé að flytja til Íslands.
„Ef fram fer sem horfir gætu íslensk stjórnvöld staðið frammi fyrir því innan tíðar að þurfa að taka afstöðu til þess hvort taka eigi á móti hinsegin flóttafólki frá Bandaríkjunum. Svo alvarleg er staðan.“
Samtökin segja Íslandi bera að tala skýrt fyrir mannréttindum þegar þau séu brotin og halda á lofti þeim gildum um frelsi sem íslenskt samfélag hefur í hávegum.
„Vinur er sá er til vamms segir. Ísland tók nýlega sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og hefur því sérstaklega gott tækifæri til þess að standa með bandarísku hinsegin fólki og varpa ljósi á mannréttindabrot bandarískra stjórnvalda, sem ekki sér fyrir endann á.“