Boðar allar samninganefndirnar á fund

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, fundar með sínu fólki …
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, fundar með sínu fólki í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, hefur boðað allar samninganefndir aðildarfélaga sambandsins til fundar klukkan eitt í dag þar sem farið verður yfir stöðuna í kjaradeilu kennara við ríki og sveitarfélög. 

Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is, en hann kveðst ekki vilja tjá sig frekar fyrr en að loknu samtali samninganefndanna.

Hann gerir ráð fyrir að Kennarasambandið muni senda frá sér einhverja yfirlýsingu síðar í dag, en ljóst er að deilan er öll í hnút.

Kennarar þurfi að slá af kröfunum

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samn­inga­nefnd­ar Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, sagði í samtali við mbl.is í gær að viðhorfs­breyt­ingu þyrfti hjá kenn­ur­um til að væri að setj­ast aft­ur að samn­inga­borðinu.

Sveit­ar­fé­lög­in hefðu teygt sig eins langt og þau gætu til að koma til móts við kenn­ara, en þeir yrðu að slá af launakröf­um sín­um ættu samn­ing­ar að nást.

Þá sagði hún ýmis lagaleg atriði í skoðun í tengslum við verkfallsboðanir kennara, sem hún gat ekki upplýst frekar um.

Verkföll hefjast 3. febrúar

Síðasti fundur samninganefndanna var á miðvikudag og var þá reynt til þrautar að finna einhvern grundvöll til frekara samtals. Ríkissáttasemjari sagði það ekki hafa tekist og því sæi hann ekki tilefni til að boða til fundar að svo stöddu. 

Að öllu óbreyttu hefjast því verk­fallsaðgerðir á ný mánudaginn 3. febrúar og kenn­ar­ar í fjór­tán leik­skól­um og sjö grunn­skól­um leggja þá niður störf.

Þá hef­ur Fé­lag fram­halds­skóla­kenn­ara gefið út að farið verði í at­kvæðagreiðslu um ótíma­bund­in verk­föll í nokkr­um fram­halds­skól­um, eft­ir að friðarskyldu lýk­ur um mánaðamót­in.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert