„Brotið hefur verið ákærða þungbært“

Dómur í málinu féll í desember en hann var ekki …
Dómur í málinu féll í desember en hann var ekki birtur fyrr en í dag á vef dómstólsins. Ljósmynd/Þór

Það þótti rétt í ljósi atvika málsins að skilorðsbinda tveggja ára dóm yfir karlmanni fyrir stórfellda líkamsárás, sem varð manni að bana, á skemmtistaðnum Lúx við Austurstræti í júní árið 2023.

Er þá meðal annars vísað til þess að brotið hafi verið honum þungbært og að hann hafi ekki ætlað að vinna það tjón sem varð.

Þetta kemur fram í dómnum sem hefur verið birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur, en dómur í málinu féll í lok desember.

Þar segir að maðurinn eigi engan sakaferil að baki og að játning hans hafi verið skýlaus.

Málið sé um margt óvenjulegt þar sem maðurinn veitti brotaþola eitt lófahögg með þeim „hörmulegu afleiðingum“ að hann lét lífið.

„Gögn málsins bera það með sér að brotið hefur verið ákærða þungbært og hefur hann glímt við einkenni alvarlegs kvíða og þunglyndis, auk áfallastreitu í kjölfarið,“ segir í dómnum.

Ekki verði þó hægt að líta fram hjá því hversu alvarlegar afleiðingar hlutust af brotinu.

Greiðir móðurinni tæpar 3 milljónir 

Þá er tekið fram að ekki sé talið að framkoma hins látna hafi gefið tilefni til árásarinnar. Samkvæmt upptökum úr eftirlitsmynda virðist hún hafa verið fyrirvaralaus.

„Á hinn bóginn verður litið til þess að ákærði hafði ekki ásetning til þess að vinna brotaþola slíkt tjón sem raun varð og afleiðingarnar urðu mun alvarlegri en höggið gaf tilefni til og verða metnar honum til gáleysis.“

Maðurinn var, líkt og áður sagði, dæmdur í tveggja ára fangelsi en dómurinn er skilorðsbundinn til þriggja ára. Haldi hann skilorð á þeim tíma þarf hann því ekki að afplána dóminn.

Þá var honum gert að greiða móður þess sem hann réðst á tæpar þrjár milljónir í skaða- og miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert