Engar lokanir í leikskólum Kópavogs

Börn í Kópavogi hafa ekki þurft að sæta lokunum á …
Börn í Kópavogi hafa ekki þurft að sæta lokunum á leikskólum sínum. Ljósmynd/Colourbox

Ekki hefur þurft að loka deildum í leikskólum Kópavogsbæjar allt frá innleiðingu Kópavogsmódelsins svokallaða, haustið 2023.

Í Kópavogsmódelinu felst meðal annars að leikskólavist er gjaldfrjáls sex klukkutíma á dag, aukinn sveigjanleiki í skráningu dvalarstunda og tekjutenging afslátta af leikskólagjöldum. Með Kópavogsmódelinu var stefnt að því að auka stöðugleika og styrkja starfsumhverfi leikskóla Kópavogs.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ. 

Breytingarnar hafa leitt til þess að dvalartími barna í leikskólum Kópavogs hefur styst verulega. Leikskólabörn dvelja núna að meðaltali í 7,3 tíma á dag í leikskólum í stað 8,1 tíma. Rúm fjörutíu prósent barna dvelja núna í leikskólum í átta tíma eða lengur en hlutfallið var rúmlega tvöfalt hærra fyrir breytingar. Þetta hefur leitt til þess að flestir leikskólar Kópavogs eru fullmannaðir og engar deildir hafa þurft að loka.

Þjónustan batnað til muna

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir að markmiðið með breytingunum hafi meðal annars verið að draga úr mönnunarvanda sem hafi lengi verið viðvarandi í leikskólum Kópavogs, hún segir að breytingarnar séu ástæða þess að ekki hafi þurft að loka leikskólum sökum manneklu og að fleiri börn fái nú leikskólapláss en áður. 

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Sigurður Bogi

„Staðan í Kópavogi fyrir breytingar var víða sú sama og hjá þeim sveitarfélögum sem hafa ekki gripið til aðgerða og þurfa því oft að grípa til fáliðunaráætlana og lokana. Það er ljóst að sama staða væri uppi hjá okkur ef við hefðum ekki innleitt Kópavogsmódelið,“ er haft eftir Ásdísi á vef Kópavogs. 

Frá innleiðingu breytinganna hafa tvívegis verið lagðar kannanir fyrir foreldra og forsjáraðila sem og starfsfólk. Niðurstöður sýna meðal annars fram á það að tekjulægsti hópurinn er almennt ánægðari en aðrir tekjuhópar með breytingarnar. Fleiri eru ánægðir en óánægðir og flestir upplifa aukinn stöðugleika. Starfsfólk er almennt mjög ánægt með breytingarnar og aukinn áhugi hefur myndast fyrir því að starfa í leikskólum í Kópavogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert