Flugfélögin í startholunum

Flugfélögin hafa flogið með á fjórða hundrað farþega til Zagreb …
Flugfélögin hafa flogið með á fjórða hundrað farþega til Zagreb hvort um sig. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg/Eggert

Landsmenn bíða spenntir eftir leik kvöldsins á HM í handbolta er Ísland mætir heimamönnum í Króatíu með Dag Sigurðsson í brúnni.

Ísland er með fullt hús stiga í milliriðli 4 og getur tryggt sæti sitt í 8-liða úrslitum í kvöld en leikurinn í Arena Zagreb hefst klukkan 19.30.

Flugfélögin Icelandair og Play eru bæði í startholunum með flug í 8-liða úrslitin en ef Íslandi tekst að komast áfram mun liðið áfram leika í Króatíu.

Á áttunda hundrað flogið til Zagreb

Play hefur flogið tvívegis til Zagreb í kringum keppnina með á fjórða hundrað farþega alls. Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, segir að ef allt fari að óskum í kvöld þurfi félagið að bæta við heimkomum.

Play flýgur í þriðja sinn til Zagreb 27. janúar með vél sem ætlað var að sækja fólkið sem er úti að fylgjast með milliriðli Íslands en Birgir segir að félagið verði fljótt að bregðast við ef úrslitin falla með Íslandi.

Þá áréttar hann að enn sé hægt að bóka flug með vélinni sem fer 27. janúar.

Bláa hafið á leik Íslands og Egyptalands á miðvikudag.
Bláa hafið á leik Íslands og Egyptalands á miðvikudag. mbl.is/Eyþór

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að hátt í 400 manns hafi flogið út á HM með félaginu. Segir hann mikinn áhuga hafa verið á ferðunum og að vélarnar hafi farið fullar út til Zagreb.

Icelandair sendi út fréttabref í gær þar sem fólki er boðið að skrá sig á biðlista vegna flugs í 8-liða úrslitin og Play er einnig á tánum og mun bregðast við með stuttum fyrirvara.

Ef Ísland kemst í undanúrslit verður leikið í Zagreb 30. janúar en ef liðið kemst alla leið í sjálfan úrslitaleikinn verður leikið í Ósló 2. febrúar.

Strákarnir okkar fagna sætum sigri á sterku liði Egyptalands á …
Strákarnir okkar fagna sætum sigri á sterku liði Egyptalands á miðvikudag í Zagreb. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert