Fríverslunarsamningar undirritaðir við Taíland og Kósovó

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, undirritaði samningana fyrir Íslands hönd.
Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, undirritaði samningana fyrir Íslands hönd. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Undirritun fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við Taíland og Kósovó fór fram í Davos í Sviss, dagana 22. og 23. janúar. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, undirritaði samningana fyrir Íslands hönd.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að viðræðum um samningana hafi verið hrundið af stað á ráðherrafundi EFTA í Borgarnesi árið 2022.

Samningarnir fela í sér víðtækar tollaniðurfellingar á öllum helstu útflutningsafurðum Íslands til Taílands og Kósovó og styrkja þannig samkeppnisstöðu íslenskra útflytjenda á þessum ört vaxandi mörkuðum.

„Þessir fríverslunarsamningar eru mikilvægt framlag til að bæta viðskiptasambönd íslenskra vöru- og þjónustuútflytjenda við bæði Taíland og Kósovó,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í tilkynningunni.

„Samningarnir leggja grunn að auknum viðskiptum og bættri samkeppnisstöðu íslenskra framleiðenda, tækni- og nýsköpunarfyrirtækja, til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf og neytendur.“

Í Davos átti ráðuneytisstjóri auk þess fund með Dr. Ngozi Okonjo-Iweala, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þar sem þau ræddu stöðu alþjóðaviðskiptakerfisins og stöðu viðræðna á vettvangi stofnunarinnar um bann við skaðlegum ríkisstyrkjum í sjávarútvegi en Ísland hefur leitt þær viðræður undanfarin ár.

Fríverslunarsamningur við Taíland

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Taílands liðkar fyrir vöru- og þjónustuviðskiptum milli samningsaðila auk þess að fela í sér skuldbindingar sem lúta að fjárfestingum, vernd hugverka, og sjálfbærri þróun. Samningurinn kveður á um niðurfellingu tolla á allar helstu útflutningsafurðir Íslands, ýmist strax við gildistöku hans eða í áföngum yfir lengra tímabil. Helstu útflutningsafurðir íslenskra fyrirtækja til Taílands undanfarin ár hafa verið sjávarafurðir, vélbúnaður til matvælaframleiðslu og drykkjarvatn.

Samningurinn kveður einnig á um samstarfsverkefni milli íslenskra og taílenskra aðila á sviði sjálfbærra fiskveiða og fiskveiðistjórnunar en Taíland er meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims. Samningurinn veitir íslenskum fyrirtækjum auk þess auknar heimildir til fjárfestinga á Taílandi og bætir aðgang íslenskra þjónustufyrirtækja að taílenskum þjónustumarkaði.

Fríverslunarsamningur við Kósovó

Við gildistöku fríverslunarsamningsins við Kósovó falla niður tollar af flestum iðnaðarvörum sem framleiddar eru hér á landi, þar með talið sjávarafurðum. Þá er kveðið á um niðurfellingu tolla af öllum landbúnaðarvörum, flestum við gildistöku en með einstaka undantekningum munu tollar falla niður að 3-5 árum liðnum.

Samningurinn felur auk þess í sér kafla um þjónustuviðskipti sem tekur til fjölda þjónustugreina, svo sem fjarskiptaþjónustu, umhverfis- og fjármálaþjónustu sem og flutninga. Þá er einnig að finna kafla um stafræn viðskipti, sjálfbær viðskipti og vernd hugverka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert