Banaslys í umferðinni: Missti stjórn þegar veðurskilyrði versnuðu skyndilega

Þegar BMW-bifreiðin var við að mæta fremri vörubifreiðinni þá skall …
Þegar BMW-bifreiðin var við að mæta fremri vörubifreiðinni þá skall allt í einu á hvítt hríðarkóf, útsýn hvarf og bifreiðin fór utan í vörubifreiðina, að því er segir í skýrslunni. Ljósmynd/Colourbox

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur lokið rannsókn á banaslysi þar sem fólksbifreið og vörubifreiðar rákust saman á Vesturlandsvegi Hvalfjarðarveg þann 16. janúar 2024. Ökumaður í fólksbifreiðinni, sjötugur karlmaður, lést í slysinu.

Fram kemur í skýrslunni, að BMW-fólksbifreið hafi verið ekið suður Vesturlandsveg við Hvalfjarðarveg norðan Hvalfjarðar umræddan dag. Á sama tíma hafi tveimur vörubifreiðum verið ekið úr gagnstæðri átt norður Vesturlandsveg.

Kort/Rannsóknarnefnd samgönguslysa

„Í mjúkri hægri beygju var BMW bifreiðinni ekið yfir á vinstri vegarhelming akbrautarinnar utan í hlið fremri vörubifreiðarinnar og eftirvagns sem vörubifreiðin dró. Í framhaldi lenti fólksbifreiðin framan á vinstra framhorni aftari vörubifreiðarinnar. Ökumaður fólksbifreiðarinnar lést á slysstað og slasaðist farþegi fólksbifreiðarinnar alvarlega,“ segir í samtantektarkafla skýrslunnar.

Slysið var tilkynnt kl. 9.48. Snjóþekja var á slysstað þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að ökumaður fólksbílsins hafi farið yfir á gagnstæðan vegarhelming með fyrrgreindum afleiðingum. Þá segir að hann hafi misst stjórn á bílnum þegar veðurskilyrði versnuðu skyndilega og hann missti útsýn.

Voru báðir í belti

Fram kemur í skýrslunni að ökumaðurinn og farþeginn í fólksbifreiðinni, sem sat í framsætinu, hafi báðir verið spenntir í öryggisbelti.

„Ökumaður fólksbifreiðarinnar lést á slysstað af völdum fjöláverka en farþeginn hlaut alvarlega áverka og var fluttur á sjúkrahús með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ökumenn vörubifreiðanna slösuðust ekki alvarlega,“ segir í skýrslunni.

Þá segir að BMW-bifreiðin, sem var nýskráð 2015, hafi verið tekin til bíltæknirannsóknar og benti ekkert í niðurstöðum rannsóknarinnar til þess að rekja mætti orsakir slyssins til ástands bifreiðarinnar.

Þá var niðurstaða áfengisrannsóknar á ökumönnum bifreiðanna neikvæð. Við lyfjarannsókn fundust engin lyf sem talin eru hafa áhrif á ökuhæfni.

Í greiningarkafla skýrslunnar segir að fólksbifreiðin hafi verið í aflíðandi hægri beygju þegar slysið varð við nyrðri gatnamót Hvalfjarðarvegar.

Ljósmynd/Rannsóknarnefnd samgönguslys

Hvítt hríðarkóf skall óvænt á

Samkvæmt vitnisburði farþega BMW-fólksbifreiðarinnar voru ökumaður og farþegi á leið til Reykjavíkur og höfðu ekið í um 20 mínútur þegar slysið varð. Að sögn farþega var ökumaðurinn reyndur bílstjóri og úthvíldur þegar lagt var af stað. Hann hafi ekki sýnt merki um syfju og verið vel vakandi.

Þá var ekkert ytra áreiti svo sem útvarp eða sími sem truflaði aksturinn. Það gekk á með éljum en samkvæmt frásögn farþega var vegur auður og þurr skömmu fyrir slysið. Þegar BMW-bifreiðin var við að mæta fremri vörubifreiðinni þá hafi allt í einu skollið á hvítt hríðarkóf, útsýn horfið og bifreið þeirra farið utan í vörubifreiðina, að því er segir í skýrslunni.

Samkvæmt vitnisburði ökumanns fremri vörubifreiðarinnar var ekkert athugavert við aksturslag fólksbifreiðarinnar áður en hún lenti aftarlega á bifreið hans, síðan á eftirvagninum og í kjölfar þess á vörubifreiðinni sem á eftir honum kom.

Samkvæmt vitnisburði ökumanns aftari vörubifreiðarinnar hafði hann ekki tekið eftir fólksbifreiðinni fyrr en hann sá hana hafna utan í fremri vörubifreiðinni og þá hafi hann hemlað.

Ökumaður bifreiðar sem ekið var á eftir vörubifreiðunum kvaðst hafa séð þegar BMW-bifreiðin missti veggrip í beygju með þeim afleiðingum að hún rakst utan í fremri vörubifreiðina og síðan framan á seinni vörubifreiðina og endaði svo utan vegar, að því er fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert