„Auðvitað er þetta óþægilegt að þurfa að yfirgefa heimili sitt og geta ekki verið að vinna í því sem maður hefði þurft að vera að vinna í og þar fram eftir götum en það taka þessu allir bara með stóískri ró,“ segir Guðmundur Höskuldsson, íbúi í Neskaupstað.
Íbúar í Neskaupstað og á Seyðisfirði þurftu að rýma heimili sín vegna snjóflóðahættu á dögunum. Rýmingunum var aflétt á þriðjudag.
mbl.is ræddi einnig við Guðmund fyrir tæpum tveimur árum þegar snjóflóð féll í Neskaupstað sem var töluvert stærra og náði inn í byggð.
„Þar sem þetta var í fyrsta skipti sem við erum rekin út úr húsi eða látin rýma síðan að flóðin féllu hérna á okkur fyrir tæpum tveimur árum. Þá fannst manni þetta ekkert tiltökumál.
Þetta var bara svona eðlilegt af því í kjölfarið á því flóði þá átti maður alveg svona von á að maður yrði bara eins og yo-yo inn og út úr húsinu alltaf þegar það snjóaði,“ segir Guðmundur.
Þá sýna íbúar því skilning að verið sé að hafa vit fyrir þeim og koma þeim burt þegar áhætta á flóði er mikil og nefnir hann t.a.m. að flóð hafi jafnframt fallið á sama stað og það gerði árið 2023 en hafi í ár ekki náð inn í byggð heldur stöðvast tæpum 200 metrum fyrir ofan byggðina.
„Þannig ég held að það sýni þessu bara allir skilning.“
Vinna hófst í fyrra við varnargarð á svæðinu og er stefnt á að garðurinn verði tilbúinn árið 2029. Um mannvirkið segir Guðmundur að um leið og það verði tilbúið og hafi farið í gegnum endurmat muni ekki þurfa að hreyfa við neinum íbúum á svæðinu.
Hann gerir þó ráð fyrir reglulegum rýmingum fram að því en segist bjartsýnn á að íbúar muni þrauka út tímabilið en tekur jafnframt fram að engar rýmingar hafi orðið veturinn 2024.
„Þannig að við getum ekki kvartað mikið held ég.“
Aðspurður segist Guðmundur hafa dvalið hjá tengdaforeldrunum þegar boðað hefur verið til rýminga en þau búa einnig í Neskaupstað. Þegar tengdaforeldrarnir þurftu svo sjálfir að rýma eina nótt árið 2023 var þá bara haldið enn neðar í bæinn þar sem fjölskylduvinur bauð gistingu.
„Það eru allir boðnir og búnir til þess að bjóða manni gistingu og allt sem maður þarf þegar maður þarf að flytja að heiman frá sér,“ segir Guðmundur og bætir við:
„Það er mikill samhugur og hefur alltaf verið.“
Nefnir hann t.a.m. að opnuð hafi verið fjöldahjálparmiðstöð þar sem íbúum var boðin gisting en að þess hafi ekki verið þörf þar sem fólk eigi alltaf einhverja að sem það getur verið hjá.
„Það komust allir inn einhvers staðar, hvort sem það var hjá vinum, kunningjum eða ættingjum.“
Guðmundur er upprunalega úr Reykjavík en hafði verið með annan fótinn í Neskaupstað síðan 1979 áður en hann tók svo upp fasta búsetu í bænum árið 2006 og býr þar með konu sinni sem sjálf er frá bænum.
Aðspurður hvort það hafi aldrei hvarflað að þeim að færa sig um fet í ljósi flóðanna og þeirra rýminga sem hafi verið boðaðar segir Guðmundur rósamur:
„Veistu það, það eru svo margir kostir við það að búa í litlu samfélagi úti á landi sem vega bara upp á móti því að búa í Reykjavík.“
Þá bætir hann við að lokum að mikil veðursæld sé einnig oft í bænum.
„Þó að við búum við þessa öfga sem eru á veturna þá fáum við það oft bætt upp á sumrin.“