Ásgeir H. Ingólfsson blaðamaður og skáld er látinn 48 ára að aldri eftir baráttu við krabbamein í vélinda og lifur.
Frá því greinir Valur Gunnarsson í færslu á Facebook-síðu listaviðburðarins Lífskviða sem fer fram í Götu sólarinnar á Akureyri í dag.
Eftir að hafa fengið þær fregnir að hann ætti skammt eftir ólifað, raunar einungis nokkrar vikur eða mánuði, skipulagði Ásgeir viðburðinn „til að fagna lífinu, dauðanum, eftirlífinu, öðrum víddum og almennri ást og vinskap,“ að hans eigin sögn.
Í færslu Vals segir að viðburðurinn muni fara fram að óbreyttu í dag að ósk fjölskyldu Ásgeirs og í anda hans.
„Vonumst til að sjá sem flesta og minnast mæts manns. Húsið verður opið frá tvö í dag og upplestur hefst upp úr sjö í kvöld.“
Ásgeir var fæddur og uppalinn á Akureyri en hefur búið víða og var síðast búsettur í Prag í Tékklandi. Fékkst hann við menningarblaðamennsku og ljóðagerð en tvær ljóðabækur hafa komið út eftir hann, Framtíðin og Grimm ævintýri.
Ásgeir vann um árabil fyrir Morgunblaðið og mbl.is.