„Það ætti að stytta upp í kvöld og samkvæmt spánni ætti úrkoma að vera gengin yfir í nótt.“
Þetta segir Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg, en hann segir snjóruðning hafa hafist klukkan fjögur í nótt og gengið vel fram til þessa.
Snjóruðningsþjónustan hafi byrjað á að ryðja helstu stofnleiðir borgarinnar, bæði á götum og stígum, en Eiður segir útlit fyrir að þær muni þarfnast áframhaldandi viðhalds fram eftir degi.
„Svo sýnist mér að það verði þörf á að fara í einhverja hreinsun í húsagötum í fyrramálið,“ segir Eiður en bætir við að eftir eigi að koma í ljós í hvaða hverfum. Yfirleitt sé þörfin mest í Úlfarsárdál og efri byggðum.
Aðspurður kveðst hann ekki hafa komið að vegfarendum í klandri enn sem komið er enda sé umferð almennt minni árla morguns um helgar.
Vetrarþjónustan verði þess þó vör á hverjum vetri að fólk sé misvel búið undir veturinn.
„En það er auðvitað mjög misjafnt hversu vel búnir bílar eru. Það er náttúrulega ekki hægt að vera á sumardekkjum,“ segir Eiður en bætir við að einhverjir láti þó ávallt á það reyna.
„Maður sér það alveg. Bíla sem lenda í klandri á rauðu ljósi sem komast ekki af stað jafnvel þótt það sé engin fyrirstaða.“