Horfa þarf á breytingu á heilbrigðiskerfinu sömu augum og nýbyggingu Landspítala, um er að ræða álíka viðamikið verkefni en engin slík vinna er í gangi. Aldraðir sjúklingar með langvinna sjúkdóma fá gjarnan mikið af lyfjum er haft geta í för með sér alvarlegar aukaverkanir. Þá getur kynjamunur komið upp í útskilnaði lyfja.
Þetta er meðal þess sem Pálmi V. Jónsson, lyf- og öldrunarlæknir og prófessor emeritus við læknadeild Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is um málefni aldraðra í heilbrigðiskerfinu.
„Ég kalla þetta blinda blettinn, það er þessi tilurð langvinnu sjúkdómana sem komu til vegna þess að nú lifum við mikið lengur, mínar ævilíkur núna eru 14 árum lengri heldur en þegar ég fæddist. Þegar við eldumst erum við líka allt öðruvísi en þegar við erum yngri. Það er bara kerfisleg óreiða í þessu.“
Pálmi flutti nýlega erindi á Læknadögum í Hörpu er fjallaði um langvinn veikindi eldra fólks.
„Blindi blettur heilbrigðisþjónustunnar í öldrunarþjónustu liggur í því hvernig umsýslu langvinnra sjúkdóma og fjölveikinda er háttað. Við erum aldrei ólíkari hvoru öðru en þegar við erum orðin háöldruð, á efstu árum þá erum við ekki eins,“ er haft eftir erindi Pálma.
Þá segir hann meðalævilíkur hafa vaxið á hverju ári frá 1840. Þær hafi farið úr 45 árum í 80,9 ár fyrir karla og 83,8 ár fyrir konur.
Í framhaldi segir hann eldra fólk í grundvallaratriðum ólíkt miðaldrafólki. Aldurstengdar breytingar í öllum líffærum séu ígildi sjúkdóma og langvinnir sjúkdómar margfaldist því með aldrinum.
Þá tvöfaldist líkur á mörgum langvinnum sjúkdómum með hverjum fimm árum eftir 65 ára aldur. Með því að seinka sjúkdómnum um fimm ár megi því helminga fjölda þeirra sem hafa einkenni 15 árum síðar.
Þá segir hann aldraða oft fá of mikið af lyfjum og tæplega 10% innlagna fólks eldra en 75 ára á lyflækningadeild megi rekja til aukaverkana lyfja.
„Það þarf að taka kerfisnálgun á þetta,“ segir Pálmi. Hann telji fulltrúa hverrar sérgreinar læknisfræðinnar fyrir sig eiga að vera á þremur stöðum; á sjúkrahúsi, utan sjúkrahúss eða úti í samfélaginu og á heilsugæslunni. Þá þurfi þessir þrír aðilar að skilgreina hver gerir hvað á hvaða tíma, á sem skilvirkastan máta.
„Ef þetta er skilgreint fyrir hverja einustu sérgrein og þá sérstaklega gagnvart langvinnum sjúkdómum, þá verður algjörlega ljóst hver ber ábyrgð á til dæmis greiningarvinnunni, hver ber ábyrgð á meðferðinni og svo framvegis,“ segir hann.
„Að mínu viti liggur ábyrgðin annars vegar hjá heilbrigðisráðuneytinu og hins vegar hjá kannski Sjúkratryggingum Íslands.“
Hann segir þau í sameiningu geta sett upp slíkt verkefni og í því ferli sé betur hægt að skilgreina ábyrgð hvers fagaðila og hvernig fylgt er eftir einstökum sjúkdómum.
Þetta muni skilgreina teymisvinnuna, til að mynda með hjúkrunarfræðingum og klínískum lyfjafræðingum. Þannig megi ná utan um þungann í þessum sjúkdómum og nýta allar heilbrigðisstéttirnar til samvinnu sem skilgreind er fyrir hvern og einn sjúkdóm. „Af því að læknar eru takmörkuð auðlind,“ segir Pálmi.
Þá segir hann þetta stórt verkefni sem kunni að verða kostnaðarsamt í framkvæmd en vel sé hægt að koma því í gegn með góðri samvinnu.
Í erindi Pálma kemur einnig fram að eins og kerfið er núna geti læknir greint sjúkdóm og talið sjúklingnum ágætlega fyrirkomið hjá sérfræðingi fyrir utan sjúkrahús eða á heilsugæslu og talið sig þá ekki þurfa að fylgja málum sjúklingsins eftir. Það sé flókið þegar eldri sjúklingur eigi í hlut.
„Vegna þess að langvinnir sjúkdómar, eins og nafnið segir til um, taka langan tíma, mislangan tíma eftir sjúkdómum en geta staðið jafnvel í 10, 15 ár eða lengur. Þá getur verið að eftirfylgdin færist til á þessu tímabili. Svo eftir því sem tíminn líður og fólk er búið að vera lengur með langvinna sjúkdóma, verður eldra og safnar á sig fleiri en einum sjúkdómi, þá kemur nýtt flækjustig. Þess vegna þurfum við að skilgreina þetta.“
Slíka greiningu þurfi að gera fyrir allar sjúkdómaþyrpingar efri áranna með aðferðum skipulags- og verkfræði. Þá þurfi faglegir leiðtogar sjúkrahúss og sérfræðiþjónusta utan sjúkrahúsa og heilsugæslu einnig að koma að borðinu.
„Tryggja þarf skjótt aðgengi að nýgreiningu og fyrstu meðferð en eftirfylgd í framhaldinu,“ segir Pálmi, það sé „grátlegt þegar það þarf sérfæðiþjónustu og hún er ekki aðgengileg fyrr en eftir hálft ár.“
Þá kemur einnig fram í erindi hans að kynjamunur geti komið fram í útskilnaði lyfja. Sem dæmi megi nefna svefnlyfið Imovane, en 7.5 mg skammtur afþví fyrir karla samsvari 3.75 mg skammti fyrir konur. 7.5 mg skammtur sé þó almennt viðmið þegar kemur að notkun lyfsins. Konur eru því í raun og veru að fá 100% meiri skammt en þær þyrftu af lyfinu.
„Þannig að ég held að í raun og veru þurfum við að nýta einhverskonar formleg vinnubrögð eins og ég ímynda mér að skipulagsfræði eða jafnvel verkfræðingar hafa. Þegar maður hugsar um þetta svona þá sér maður að þetta er ansi viðamikið verkefni,“ segir Pálmi og bendir á að skipulag heilbrigðisþjónustu á samfélagsstigi sé „engu viðaminna en að endurnýja þjóðarsjúkrahúsið.“
„Ég hef stundum sagt það að þetta er ekkert minna mál en að endurnýja Landspítalann við Hringbraut. Hvað er búið að kalla í marga arkitekta, verkfræðinga, byggingarfulltrúa og svo framvegis til þess að fara yfir öll mál fyrir utan. Svo er allt fagfólkið sem þarf að koma inn til að setja allt ferlið í gang inni á sjúkrahúsinu. Það er ekkert sambærilegt í gangi utan sjúkrahúss,“ segir Pálmi og bendir á að heimilislæknar lendi jafnvel í því að eiga við mál sem þeir hafi ekki viðeigandi sérfræði þekkingu fyrir. Tekur hann dæmi um slíkt.
„Núna til dæmis á læknadögum kemur ákall frá heimilislæknum um það að skilgreina hver beri ábyrgð á því að setja greiningu við ADHD. Þau segja „við höfum ekki sérfræðiþekkingu til þess að fylgjast með ADHD og endurnýja lyf á ábyrgan hátt.“ Það er bara eitt dæmi en það er hægt að taka mörg svona dæmi,“ segir Pálmi.
Í erindi sínu bendir Pálmi einnig á að athafnir daglegs lífs séu fjórtán sinnum betri í að spá fyrir um andlát heldur en sjúkdómsgreiningar. Áskrifendur geta lesið grein Pálma úr greinarsafni Morgunblaðsins, þar sem fram kemur að „líkamleg hreyfing er hornsteinn heilbrigðrar elli, bæði með því að lengja líf og bæta lífsgæði.“