„Þessi dómur setur landeldisverkefnið ekki í uppnám, hann hefur víðtæk áhrif á alls konar vatnatengd mál á Íslandi, en landeldi er ekki þar undir,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri landeldisfyrirtækisins GeoSalmo í Þorlákshöfn, við mbl.is og vísar þar til viðtals Morgunblaðsins við Hörð Arnarson Landsvirkjunarforstjóra í dag en hann er nýjasti gestur Spursmála.
Ræðir Hörður þar um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. janúar þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ekkert stjórnvald hefði heimild til þess að veita leyfi til breytinga á svokölluðum vatnshlotum, en þar er hugtak sem nær hvort tveggja til yfirborðs- og grunnvatns. Telur forstjórinn landeldisverkefni upp á tugi milljarða í uppnámi.
Jens tekur hins vegar fram að landeldi falli ekki undir gildissvið dómsins. „Það sem hefur verið í gangi í kringum Hvammsvirkjun hefur hins vegar tafið töluvert fyrir landeldisverkefnum á Íslandi og valdið flækjum í málsmeðferð. Dómurinn leggur til grundvallar niðurstöðu sinni að Landsvirkjun hafi átt að fá undanþágu til að breyta vatnshloti,“ segir hann.
Í landeldi séu hins vegar engar breytingar á vatnshlotum undir, eingöngu nýting þeirra, og kveður Jens eðlismun þar á.
„Ég tek þó fram að þetta er frekar tæknilegt atriði og ég efast um að Hörður sé eitthvað að horfa í þau smáatriði, hann veit alveg að fyrri ógildingar á Hvammsvirkjun hafa valdið okkur búsifjum, en þetta sem slíkt gerir það ekki, sú túlkun liggur alveg fyrir og allar greiningar og rannsóknir sem þarf til að staðfesta hana hafa verið framkvæmdar,“ heldur framkvæmdastjórinn áfram.
Segir hann það liggja fyrir að ekki þurfi að veita sambærilega undanþágu fyrir vatnsnýtingu landeldisfyrirtækja og Landsvirkjun þurfti fyrir Hvammsvirkjun. „Þar af leiðandi á þessi dómur ekki við um þá leyfisveitingu og það má veita leyfi til vatnsnýtingar vegna landeldis.
Hvar er ykkar mál statt núna?
„Eins og ég skil yfirvöld er okkar leyfisveiting á lokametrum og ekkert sem vantar í þeim efnum. Þessi dómur hefur í raun engin áhrif þar á og við vonum bara að fari að styttast í leyfið. Meðal annars vegna fyrri mála í tengslum við Hvammsvirkjun hefur þurft að leggja mikil gögn, greiningar og rannsóknir fram og við erum búin að fara í gegnum það allt saman,“ svarar Jens og segir aðspurður að hann sjái ekki að leyfisveitingin geti steytt á nokkru skeri héðan af.
„Grundvöllur þessa landeldis er að þessar auðlindir séu nýtanlegar á sjálfbæran hátt. Fyrirtækin þurfa mest á því að halda að nýtingin sé sjálfbær og hafi ekki áhrif til breytinga á þessum vatnasvæðum. Fyrirtækin sjálf mega ekki við því að það séu að verða breytingar þar á og hafa gert rannsóknir sem sýna að svo er ekki. Þetta er allt öðruvísi mál en virkjunarframkvæmdir sem hafa óhjákvæmilega í för með sér breytingar á vatnasvæðum,“ segir Jens Þórðarson framkvæmdastjóri GeoSalmo að lokum.