„Viðkomandi var laminn í höfuðið með einhverju áhaldi og hlaut höfuðáverka sem þurfti að gera að eða líta á,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan rannsakar líkamsárás fyrir utan skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur í nótt en einn var fluttur á sjúkrahús vegna árásarinnar.
Guðbrandur segir starfsmann staðarins hafa verið barinn í höfuðið með einhvers konar áhaldi en að ekki hafi verið um vopnaða árás að ræða.
Eitthvað hafi komið upp á sem varð til þess að til handalögmála kom og er talið að árásarmaður hafi verið undir talsverðum áhrifum áfengis eða vímuefna.
Guðbrandur segir að við nánari athugun sé árásin ekki skilgreind sem meirháttar líkamsárás líkt og talið var í fyrstu.
„Hann var ekki meðvitundarlaus eða neitt slíkt. Þetta var sannarlega líkamsárás sem ég geri ekkert lítið úr, en þetta er eitthvað sem stöðin afgreiðir bara í rólegheitum,“ segir Guðbrandur.
Meintur árásarmaður reyndi að flýja vettvang er lögreglu bar að garði en var hann handtekinn eftir stutta eftirför.
„Nú er spurning að finna möguleg vitni og annað slíkt.“
11:21 Fréttin hefur verið uppfærð.