Tveggja hæða Airbus-vél flugfélagsins Emirates komst loksins aftur á loft í dag, tveimur sólarhringum eftir að hún tók neyðarlendingu á Keflavíkurflugvelli á fimmtudag. Um 500 farþegar lúxusflugfélagsins sátu því fastir á Íslandi í millitíðinni og þeir voru missáttir við veðrið.
Eins og mbl.is greindi frá á laugardag þurfti að lenda Airbus A-380 flugvél frá Emirates á Keflavíkurflugvelli vegna veikinda farþega um borð. Vélin var á leið frá Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum til JFK-flugvallar í New York í Bandaríkjunum.
Upplýsingafulltrúi ISAVIA beindi fyrirspurnum á Emirates þegar mbl.is hafði samband í dag og kvaðst ekki getað tjáð sig um málið.
Að sögn heimildamanna mbl.is var vélin nánast full en hún getur rúmað fleiri en 600 farþega og eru slík ferlíki sjaldséð á Keflavíkurflugvelli.
Vélin hafi átt að fara aftur í loftið á fimmtudag um leið og veiki farþeginn var kominn út en tafir urðu á því, fyrst vegna snjókomu.
Síðan rann áhöfnin út á tíma, samkvæmt umfjöllun Daily Beast, þar sem hún hafði verið vakandi of lengi og mátti ekki halda áfram að fljúga þar til hún væri fullhvíld að nýju.
Það þurfti því að finna gistipláss handa áhöfn vélarinnar og farþegum hennar.
Ekki voru allir farþegar sáttir og sumum leist sérstaklega illa á íslenska vetrarveðrið. AirLive hefur eftir farþegum að áhöfnin hafi „neytt“ þá til að yfirgefa vélina.
Sumir farþegar lögðu orð í belg á samfélagsmiðlum. Einn kvartar undan slæmum samskiptum við flugfélagið og bendir á að níræð amma sín hafi þurft að ganga í hálku án stafs, en farþegarnir þurftu að skilja föggur sínar eftir í farangursrými vélarinnar.
Þá voru ekki allir klæddir fyrir íslenska janúarveðrið.
Ein segir flugfélagið vera á hálum ís, rétt eins og farþegarnir sem þurftu að hoka við á Íslandi.
Þeir farþegar sem kvörtuðu til Emirates á samfélagsmiðlum fengu margir sjálfvirkt svar frá félaginu þar sem beðist var forláts á óþægindunum.
Icelandair mun hafa þjónustað vélina þar sem félagið gerði samstarfssamning við Emirates í sumar.
Vélinni var áætlað að taka á loft um kl. 10 að laugardagsmorgni en flugið virðist hafa tafist aftur.
Samkvæmt FlightRadar tók vélin af stað kl. 14 í dag og lenti á JFK-flugvellinum í New York um kl. 19. Flugið er því rúmlega tveimur sólarhringum á eftir áætlun.