Áslaug býður sig fram í formannssætið

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á fundi í Sjálf­stæðissaln­um við Aust­ur­völl í …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á fundi í Sjálf­stæðissaln­um við Aust­ur­völl í dag. mbl.is/Hákon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur boðið sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins.

Hún tilkynnti um ákvörðun sína rétt í þessu á fundi sem hún boðaði til í Sjálf­stæðissaln­um við Aust­ur­völl.

Landsfundur framundan

Fundarefnið var ekki tilgreint í auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í gær en töldu margir nokkuð ljóst að Áslaug myndi tilkynna um framboð enda hefur hún verið margorðuð við formannsstólinn sem Bjarni Benediktsson mun láta af á landsfundi flokksins sem fer fram 28. fe­brú­ar til 2. mars.

Varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, tilkynnti nýverið að hún hygðist ekki sækjast eftir formannssætinu.

Auk Áslaugar hafa þau Guðrún Hafsteinsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson verið sterklega orðuð við framboðið en hvorugt þeirra hefur greint frá ákvörðun sinni.

Stutt í næstu kosningar

Í ræðu sinni sagði Áslaug Ísland vera á krossgötum en Sjálfstæðisflokkinn vera það líka. Flokkur sem vilji vera leiðandi afl í samfélaginu þurfi að vita hvaða erindi hann eigi.

Í dag sé sams konar stjórn við völd og eftir hrun. Tveggja flokka vinstristjórn auk einhvers konar félagasamtaka, sem stefni að því að skrá sig sem stjórnmálaflokk fyrr eða síðar.

„Þing er ekki hafið og það er strax farið að bresta í ríkisstjórnarsamstarfinu. Það hlýtur að vera Íslandsmet á mánuði,“ sagði Áslaug.

„Það er stutt í næstu kosningar. Þá er ég ekkert endilega að tala um skammlífa ríkisstjórn, þótt ég útiloki svo sem ekkert í þeim efnum, heldur er ég að tala um aðrar kosningar, ekki síður mikilvægar.“

Brýnt að flokkurinn endurheimti Reykjavík

Mikið verk væri fyrir hendi og mikilvægt að flokkurinn leiði sterka stjórnarandstöðu gegn nýrri ríkisstjórn, sem öflugir málsvarar sjálfstæðisstefnunnar, og fari sterkur og samheldinn inn í sveitarstjórnarkosningar, enda brýnt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi leiða borgina að nýju.

Sjálf hafi hún ung að aldri gengið í gegnum reynslu sem leiddi til þess að málefni samfélagsins fönguðu hug hennar allan. Hún hafi þá áttað sig á að það þýði ekki að sitja hjá og bíða eftir að hlutir gerist heldur grípa tækifærin þegar þau banki upp á.

Hún hafi sóst eftir embættum sem sumir sögðu að hún ætti ekkert með að sækjast eftir, hvort sem það var þegar hún fór í sitt fyrsta prófkjör árið 2016, þegar hún óskaði eftir oddvitasæti í Reykjavík eða þegar hún sagðist treysta sér til að setjast við ríkisstjórnarborðið og í stól dómsmálaráðherra.

Eftir engu að bíða

Einhverjir segi enn að betra væri að bíða en hún geti sagt af fullri alvöru að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki tíma til að bíða.

„Við Sjálfstæðismenn og raunar þjóðin öll megum engan tíma missa. Á meðan núverandi stjórn er við völd, á meðan borgin er rekin á yfirdrætti, þegar flokkurinn þarf mest á því að halda að fá nýjan kraft og þegar erindið hefur aldrei verið brýnna - getum við ekki beðið,“ sagði Áslaug.

„Það er þess vegna sem ég býð mig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins,“ bætti hún við og uppskar mikið lófatak í salnum.

Kvaðst hún ekki ætla að gefa mörg stór loforð en hét því að næði hún kjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins myndi hún leggja sig alla fram og virkja hvern einasta flokksmann til verka við að móta stefnuna og hrinda hugsjónum í framkvæmd.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert