„Ég keypti íbúð í hverfi sem mér leist mjög vel á og treysti þeim upplýsingum sem voru til staðar og ég var kannski svo barnaleg að trúa því að eitthvað væri að marka það sem okkur var kynnt,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir vegna fyrirhugaðra bygginga við Haukahlíð og Smyrilshlíð sem hún segir að laumað hafi verið í gegnum skipulag um mitt sumar 2021.
Sigríður segir hverfið í dag eiga lítið skylt við það hverfi sem það átti að vera og íbúarnir hafi reynt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva þessar framkvæmdir.
„Bygging fimm hæða húss varpar skugga þannig að ég í minni íbúð á þriðju hæð fæ ekki sólarljós allt árið um kring. Mín íbúð eins og fleiri íbúðir í húsinu hefur ekki glugga út í inngarða og er hönnuð með það fyrir augum að fá birtu úr vestri og norðvestri þar sem áttu að vera lægri byggingar.“
Morgunblaðið hefur áður greint frá því að Bjarg íbúðafélag hyggist byggja 83 íbúðir á I-reit, sem er á horni Haukahlíðar, Smyrilshlíðar og Bæjarleiðar. Rétt er að taka fram að umdeildur byggingarreitur gerði ráð fyrir 70 íbúðum í skipulagbreytingunni 2021.
Sigríður, sem býr í Smyrilshlíð 2, segir að breytingar á skipulagi Hlíðarendasvæðis frá 2010 séu svo margar að ekki sé fyrir venjulegt fólk að fylgjast með því. Þegar hún keypti sína íbúð voru sýndir byggingarreitir merktir G og H vestan við hennar hús. Á þeim reitum var gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði. Á H-reit var gert ráð fyrir 3-4 hæða húsum en á G-reit var hæð á húsum ekki tilgreind. Sunnan við G-reitinn var grænn reitur afmarkaður með textanum: „Opið svæði til bráðabirgða – framtíðar byggingarreitur.“
Sumarið 2021 auglýsti Reykjavíkurborg breytingu á þessu skipulagi.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út föstudaginn 24. janúar.