„Kannski er það vinstri mönnum að þakka að ég stend hér,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er hún tilkynnti framboð sitt til formennsku Sjálfstæðisflokksins í dag.
„Ég hreifst nefnilega af stefnu Sjálfstæðisflokksins þegar vinstri stjórnin var við völd eftir hrun. Það var augljóst fyrir mér, eins og mörgum fleirum, að vinstri var ekki svarið, ekki þá og ekki nú.“
Svarið við vandamálum þess tíma hafi ekki verið „þetta dyrabjölluat í Brussel“, skattahækkanir, vonlaus vegferð með nýja stjórnarskrá eða vantraust á einkaframtakinu.
Nú þegar taka á upp ýmis hugðarefni gömlu vinstristjórnarinnar sé nýja ríkisstjórnin ekki heldur með svarið.
„Ég verð þó að hrósa henni fyrir að gera sér grein fyrir því og biðja um aðstoð. Ég tók enda glöð þátt í því og hef sent henni nokkrar hagræðingartillögur.“
Hún hafi hrifist af sjálfstæðisstefnunni á sínum tíma enda sé hornsteinn hugmyndafræðinnar rétturinn til að ráða sínu eigin lífi og um leið skyldan til að virða rétt annarra til hins sama.
„Við virðum hvort tveggja en andstæðingar okkar eru oft uppteknari af eigin réttindum og skyldum annarra.“
Áslaug sló á létta strengi og sagði samskonar stjórn vera við völd nú og og eftir hrun.
„Tveggja flokka vinstristjórn. Með þessum tveimur flokkum eru líka einhvers konar félagasamtök, sem reyndar stefna að því að skrá sig sem stjórnmálaflokk fyrr eða síðar,“ sagði hún og vísaði til þess að Flokkur fólksins er skráður sem félagasamtök hjá Skattinum en ekki stjórnmálasamtök, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarið.
„Þing er ekki hafið og það er strax farið að bera á brestum í ríkisstjórnarsamstarfinu. Það hlýtur að vera Íslandsmet,“ bætti hún við.
Fréttin hefur verið uppfærð.