Íhugar formennsku og varaformennsku alvarlega

Guðrún Hafsteinsdóttir hefur verið margorðuð við formannssæti flokksins.
Guðrún Hafsteinsdóttir hefur verið margorðuð við formannssæti flokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Hafsteinsdóttir kveðst ekki hafa tekið ákvörðun um mögulegt framboð til forystu Sjálfstæðisflokksins enn sem komið er.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tilkynnti um framboð sitt til formennsku í dag en Guðrún hefur einnig verið sterklega orðuð við formannssætið.

„Ég hef verið að tala við fólk um allt land og íhuga stöðuna og meta hana. En ég er ekki komin að niðurstöðu,“ segir Guðrún.

Ennþá langt í landsfund

Guðrún hefur fengið áskoranir víðs vegar að á síðustu vikum en spurð hvort það hafi áhrif á ákvörðun hennar kveðst hún í það minnsta taka slíkri hvatningu alvarlega.

„Þegar fólk er að skora á mann og senda manni skilaboð og hringja og annað þá vitaskuld íhugar maður það og ég er að því núna þessa dagana. Það er ennþá langt í landsfund.

Þú hefur áður sagt að þú útilokir ekki að sækjast eftir öðrum hlutverkum í forystunni, er það enn raunin?

„Já, ég er að íhuga alvarlega annaðhvort formann eða varaformann og hef ekki tekið neina afstöðu til þess. En ég hef ekki íhugað annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert