Tónlistin fær að fljóta óþvinguð

Sveitatónlist og þjóðlög í bland, segir Soffía Björg hér í …
Sveitatónlist og þjóðlög í bland, segir Soffía Björg hér í viðtalinu, spurð um tónlistarstefnu sína. mbl.is/Sigurður Bogi

Ég leyfi tónlistinni að fljóta nánast óþvingað, því slíkt leiðir gjarnan eitthvað gott og skemmtilegt af sér,“ segir Soffía Björg Óðinsdóttir, söngvaskáld í Borgarfirði. Sú gerði stormandi lukku þegar hún söng og spilaði síðasta föstudagskvöld í Vikunni, sjónvarpsþætti Gísla Marteins. Daginn eftir var hún svo komin á heimaslóðir sínar og skemmti þar með Jakobi Frímanni Magnússyni og fleiri góðum sem voru með samkomu í félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit í Borgarfirðinum.

Grín um miðaldra fólk

Slagarinn sem Soffía hefur víða sungið að undanförnu – svo sem í sjónvarpinu – og gæti orðið einkennislag hennar, er Draumur að fara í bæinn. Lagið er danskt að uppruna en fyrir 70 árum var saminn að því texinn Það er draumur að vera með dáta. Þar sagði frá íslensku stúlkunni sem undi sér vel og fann ástina í faðmi hermanns, en slíkir frá Bretlandi og síðar Bandaríkjunum voru á tímum síðara stríðs og í kjölfar þess hér á landi svo skipti tugum þúsunda. „Og finna hve ljúft þeir láta / þá líður tíminn fljótt,“ segir í textanum sem Soffía Karlsdóttir söng – en barnabarn hennar er Soffía Björg sem hér er í viðtali.

„Ég spilaði í Hernámssetrinu síðastliðið sumar og var þar beðin um að flytja lagið sem amma söng forðum um drauminn og dátann. Svo þegar heim var komið að æfa lagið þá datt mér þessi nýi texti í hug og frumflutti hann svo á tónleikunum. Þessi texti er samtímagrín um miðaldra fólk í leit að ástinni með öllu sem því fylgir,“ segir Soffía Björg sem stendur á fertugu.

Að lokinni Magnúsarvöku sl. laugardagskvöld. Frá vinstri talið Eðvarð Lárusson, …
Að lokinni Magnúsarvöku sl. laugardagskvöld. Frá vinstri talið Eðvarð Lárusson, Soffía Björg, Jakob Sigurðarson, Heiðmar Eyjólfsson og Jakob Frímann sem leggur hönd á öxl Ásmundar Sigurðssonar.

Sjálflærð á gítar og píanó

Tónlistarnám hóf Soffía fyrir 20 árum, hún byrjaði í söngnámi og nam síðar tónsmíðar í Listaháskóla Íslands. Svo er hún sjálflærð á gítar og píanó. Í músíkstússi sínu hefur Soffía gjarnan verið í samstarfi við tónlistarmanninn Pétur Ben sem hefur kennt henni sitthvað í lagasmíðum og textagerð. Hann er upptökustjóri á næstu plötu Soffíu sem væntanleg er í vor, þeirri þriðju sem hún sendir frá sér. Sú plata eins og hinar tvær fyrri er gefin út á steymisveitum og hægt að kaupa lög af þeim þar.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 23. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert