Yfir 26 þúsund Íslendingar notuðu ADHD-lyf á síðasta ári og hafa þeir aldrei verið fleiri. Kostnaður ríkisins við lyfin hefur aldrei verið meiri, en hann var árið 2023 rúmur 2,1 milljarður króna.
Í grænbók um stöðu ADHD-mála á Íslandi kemur fram að gæðum sé ábótavant þegar kemur að bæði greiningu á ADHD og lyfjameðferð. Telur nefndin að í of ríkum mæli sé gripið til lyfjameðferðar miðað við núverandi stöðu og þekkingu. Þá telur nefndin einnig að eftirfylgd sé ábótavant. Einnig bendir hún á að örvandi lyf, á borð við Elvanse, Concerta og Rítalín, séu mest notuð við ADHD.
Í málstofu á læknadögum í síðustu viku kom fram að sérfræðingar fyndu fyrir þrýstingi frá sjúklingum til að greina ADHD. Embætti landlæknis hefur borist ein tilkynning um misbrest á greiningarferli á ADHD. Málið er nú til skoðunar innan embættisins.
Alma Möller heilbrigðisráðherra boðar frumvarp sem tryggir landlækni lagaheimild til að kalla kerfisbundið eftir heildstæðum upplýsingum um veitta heilbrigðisþjónustu frá sjálfstætt starfandi sérfræðingum.
Nánari umfjöllun í Morgunblaðinu í dag.