Opnar McDonald's á Íslandi

Margir fagna eflaust tækifærinu að borða McDonald's hamborgara á íslenskri …
Margir fagna eflaust tækifærinu að borða McDonald's hamborgara á íslenskri grundu aftur – jafnvel þótt það sé bara í einn dag. Samsett mynd/Aðsend

Fyrir 15 árum síðan var McDonald's lokað á Íslandi, en um næstu helgi verður þessi heimsfrægi skyndibitastaður opnaður á ný – að minnsta kosti í einn dag.

Sá sem stendur fyrir þessu óvenjulega framtaki er Sindri Leví Ingason, 25 ára ævintýragjarn YouTuber sem hefur sett sér það markmið að verða stór á miðlinum.

McDonald's er í uppáhaldi hjá mörgum Íslendingum.
McDonald's er í uppáhaldi hjá mörgum Íslendingum. mbl.is/Arnaldur

Til að gera upplifunina eins sannfærandi og nostalgíska og mögulegt er, hefur Sindri tryggt sér fræga McDonald trúðinn sem margir muna eftir frá gamla staðnum á Íslandi, og hann mun gleðja gesti á staðnum. 

Sindri staðfesti að fræga trúðastyttan, Ronald McDonald, sem margir muna …
Sindri staðfesti að fræga trúðastyttan, Ronald McDonald, sem margir muna eftir frá McDonald's á Íslandi á sínum tíma, verði á svæðinu. Hér má sjá þá félaga. Ljósmynd/Aðsend

Ekki nóg með það – síðasti McDonald's hamborgarinn sem var seldur á Íslandi, 31. októ­ber árið 2009, verður einnig til sýnis á staðnum.

„Hann verður þar til sýnis. Mér finnst mikilvægt að tengja fortíðina með hamborgaranum og trúðastyttunni,“ segir Sindri, sem hafði samband við eigendur hamborgarans til að tryggja að þessi sögufrægi skyndibiti verði hluti af upplifuninni.

Staðurinn verður opnaður, kl. 14:00, næstkomandi sunnudag, 2. febrúar, á kaffihúsinu og Vínbarnum DÆINN í Urriðaholti.  Sindri segir að eigendur staðarins hafi tekið hugmyndinni vel og leyfðu honum að taka yfir staðinn þennan eina dag.

„Þetta er örugglega besta hugmynd sem ég hef fengið,“ segir Sindri, sem hyggst fljúga til Lundúna daginn áður, kaupa helling af hamborgurum og koma með þá til Íslands til að gefa.

Hér má sjá viðburðinn á Facebook.

Draumurinn um YouTube-frægð

Sindra hefur lengi dreymt um að verða stór á YouTube en hóf að leggja sig alvarlega fram í september síðastliðnum.

„Ég ætlaði að ná 100 þúsund áskrifendum á innan við 12 mánuðum,“ segir hann í samtali við K100.is. Hann leggur mikið upp úr því að myndböndin hans séu vönduð, skemmtileg og með sterka sögu.

Sindri er enn að vinna sig upp í YouTube-bransanum en …
Sindri er enn að vinna sig upp í YouTube-bransanum en vonast til að geta unnið alfarið við myndbandagerð fljótlega. Ljósmynd/Aðsend

Sindri hefur vakið athygli með óvenjulegum myndböndum á YouTube, þar sem hann hefur tekist á við alls konar áskoranir eins og að selja hraun úr íslensku eldfjalli, halda sundlaugarpartí í Grjótagjá og rannsaka draugahús. 

Hér er Sindri að næla sér í sýni úr eldfjalli.
Hér er Sindri að næla sér í sýni úr eldfjalli. Ljósmynd/Aðsend

Hér má sjá myndband Sindra um eldfjallaævintýrið. 

 

Hann hefur einnig lagt af stað í metnaðarfullt verkefni fyrir YouTube-myndband, þar sem hann reynir að skipta sér upp úr 100 krónum yfir í sífellt verðmætari hluti. Það verkefni er enn í vinnslu, en nú þegar hefur hann unnið sig upp í ágætis bíl að verðmæti 400-500 þúsund krónur.

„Ég byrjaði með hundraðkall, skipti honum í flautu, svo kveikjara, svo peysu, svo PlayStation 4 – svo koll af kolli. Og endaði með rafmagnsmótorhjól og bíl,“ útskýrir hann. Markmiðið? Að vinna sig upp í ferð í einkaþotu.

Sindri naut sín vel einn í sundlaugarpartíi í Grjótagjá.
Sindri naut sín vel einn í sundlaugarpartíi í Grjótagjá. Ljósmynd/Aðsend

Sindri lítur upp til YouTube-stjarna eins og Eric, Jack Pembrook og Ryan Trahan og hefur meira að segja unnið með einum, sem heitir Fidias, þekktum YouTuber frá Kýpur sem einu sinni vann Lamborghini í MrBeast-myndbandi.

„Mig langar að tengjast fleiri YouTuberum erlendis,“ segir hann og bætir við að YouTube á Íslandi sé enn mjög lítið samfélag.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sindri náð ótrúlegum árangri í ýmsum verkefnum. Hann er frumkvöðullinn á bak við borðspilið Reckless Sloths, sem safnaði um 30 þúsund dollurum á Kickstarter.

McDonald's ævintýrið

McDonald's hefur lengi verið umtalað á Íslandi, enda margir sem sakna skyndibitakeðjunnar sárt og vilja ólm fá hana aftur til landsins. Sindri ákvað hins vegar að taka málin í sínar hendur. „Fyrst þeir vilja ekki opna hérna, þá geri ég það bara sjálfur! Allavega í einn dag,“ segir hann og hlær.

Til að gera þetta sem trúverðugast náði hann sambandi við Jón Garðar Ögmundsson, manninn sem áður rak McDonald's á Íslandi áður en staðurinn varð Metro. Jón var meira að segja tilbúinn að lána Sindra gamla Ronald McDonald's trúðinn, sem lengi stóð vaktina við íslenska McDonald's-staði.

Hér má sjá Sindra að vinna í einu af framtíðarmyndböndum …
Hér má sjá Sindra að vinna í einu af framtíðarmyndböndum sínum og eignast nýjan bíl sem segja má að hafi kostað aðeins 100 kr. Ljósmynd/Aðsend

Vill ekki vera kærður af skyndibitakeðjunni

Að setja upp svona viðburð krefst þó vandaðrar útfærslu, og Sindri segist vera með ýmislegt í huga.

„Ég þarf reyndar að breyta lógóinu og merkinu örlítið af því að ég vil ekki verða kærður af McDonald's,“ segir hann og hlær. „Ætla samt að gefa alvöru McDonald's hamborgara.“

Þótt þetta sé fyrst og fremst YouTube-tilraun segir Sindri að margir séu þegar spenntir.

„Ég hef varla markaðssett þetta enn þá,“ segir hann. „Ég ætla að gefa þetta allt – þetta er bara mín gjöf til Íslands.“

Sindri mun breyta McDonald's merkinu örlítið til að koma í …
Sindri mun breyta McDonald's merkinu örlítið til að koma í veg fyrir kæru skyndibitarisans. AFP

Hvort McDonald's-dagurinn hans Sindra skrái sig í sögubækurnar eða verði bara einstakt ævintýri á enn eftir að koma í ljós. En eitt er víst – þetta verður áhugavert myndband!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert