Mikill vatnselgur hefur myndast á höfuðborgarsvæðinu. Hefur það þær afleiðingar að hálkuvarnir eru fljótar að renna á brott.
Þetta segir Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg, í samtali við mbl.is.
„Það er mjög hált og sérstaklega þar sem það er mikill vatnselgur,“ segir hann.
Sumsstaðar renni mikið vatn eftir götum og göngustígum sem verði til þess að hálkuvarnir, eins og salt eða sandur, séu fljótar að renna á brott með vatninu.
„Á meðan er klaki undir þá er aðeins hættulegt ástand, bara rétt á meðan þetta gengur yfir.“
Þá segir hann góð samskipti ríkja á milli bakvaktarinnar og lögreglu, neyðarlínu og vaktstjóra Strætó, sem eru til að mynda meðvitaðir um hálku í nálægð við biðstöðvar Strætó.