„Það er skítaveður,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, af gangi mála í nótt og í morgun og segir mbl.is af helstu verkefnum björgunarsveita víða um land.
Í Bolungarvík fuku þakplötur af beitningaskúr í morgun og er verkefninu að mestu lokið að sögn upplýsingafulltrúans.
Í smábátahöfninni á Norðfirði slitnaði bátur frá bryggju með slíku offorsi að hann reif bryggjupolla með sér út í sjó áður en hann rak upp í hafnargarð og vinnur björgunarsveitin Gerpir í Neskaupstað nú að því að komast að bátnum og er björgunarskipið Hafbjörg á vettvangi til fulltingis.
Þá var björgunarsveitarfólk á Héraði kallað út í nótt eftir að ökumaður lítillar hópferðabifreiðar komst í hann krappan þar sem hann var á ferð með fólk um Fagradal og voru níu manns ferjaðir þaðan niður á Egilsstaði.
Eins og frá var greint í gærkvöldi féllu tvö snjóflóð úr Enninu við Ólafsvík og niður á veginn sem þar liggur um. „Þar var ekki hundrað prósent vitneskja um hvort fólk hefði lent í flóðinu, en talið var líklegt að svo væri ekki. Þegar mitt fólk kom á svæðið féll annað flóð svo það var ákveðið að hörfa og vera ekki með fólk á svæðinu á meðan staðan væri þessi,“ segir Jón Þór að lokum.