Fjölmiðlafólk var rekið út úr Karphúsinu fyrir skömmu. Ástæðan sem var gefin upp var sú að samningaviðræður væru á viðkvæmum stað, en samninganefndir Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga funda nú í Karphúsinu.
Ríkissáttasemjari lagði fram innanhústillögu í kjaradeilu kennara á fimmtudag. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti tillöguna í gær. Samninganefnd Kennarasambands Íslands hafði til klukkan 13 í dag til að bregðast við tillögunni. Ekki liggur fyrir hver afstaða KÍ er.
Fari svo að KÍ hafni tillögunni munu verkfallsaðgerðir hefjast á ný í dag og ná til fjórtán leikskóla og sjö grunnskóla. Verkfallsaðgerðinar yrðu tímabundnar í grunnskólunum en ótímabundnar í leikskólunum.